Jónas stýrimaður í Manitsok og koss á þúsundkall

Það þóttu tíðindi um haustið þegar íslenskt varðskip kom í höfnina. Það hafði leitað vars í snarvitlausu veðri. Við fórum um borð nokkrir Íslendingar til að heilsa upp á landa okkar. Á vakt í brúnni var Jónas stýrimaður eins og hann var kallaður lengst af. Þetta var í Manitsok á Grænlandi. Það var stormhvinur í loftinu og snjór yfir öllu.

Atvikið rifjaðist upp fyrir mér í gær. Ásta var svo elskuleg að taka mig með á Bókamarkaðinn í Perlunni. Víst hafði ég ákveðið að fara ekki þangað vegna veikleika míns í nærveru bóka. „Þú hefur gott af því,“ sagði þessi elska, „það er ekkert nauðsynlegt að detta í það þó þú lítist um.“ Kannski.

Þarna var margt fólk. Og þarna er ógrynni bóka. Ég gekk meðfram borðunum og las á titlana og strauk mjúklega yfir kápur ýmissa gersema. Þessar elskur. Sumar brostu til mín og það var eins og þær segðu: Líst þér ekki á mig? Mér leist afskaplega vel á sumar þeirra. Stundum var ég fyrir öðru fólki sem ýtti við mér og ég sagði fyrirgefðu og konur voru ýtnari en karlar. Það er oft.

Ásta hafði náð sér í eina, tvær eða þrjár, bækur eftir uppáhaldshöfunda. Ég er heppinn. Einn þeirra er líka í uppáhaldi hjá mér. Svo komum við að borðunum þar sem ljóðabækurnar eru. Þar var fátt. Aðeins tveir karlar, gamlir, ógreiddir og í snjáðum fötum og beygðu nefin alveg ofaní bækurnar. Ég gerði það líka en af virðingu við bækurnar var ég þokkalega klæddur og með alpahúfu.

Svo hitti ég kunningja. Sagði sæll. Hann horfði á mig. Það leið allöng stund. Hann horfði. „Þekkir þú mig ekki?“ spurði ég. Þá roðnaði hann og sagði jú,jú. Hann er blaðaljósmyndari og gerir flottustu portrait myndir sem maður sér. Ég nota hvert tækifæri til að heilsa honum og hrósa. Einu sinni tók hann svoleiðis mynd af mér og setti á sýningu. Þá var ég pínulítið upp með mér.

Svo hittum við Ásta sonarson okkar og unnustu hans. Glæsileg ungmenni. Pilturinn ætlar að verða listamaður. Fyrsta skrefið er stór hattur sem hann ber við öll tækifæri. Hann með stóran svartan hatt og ég með alpahúfu. Við föðmuðumst og gullfalleg stúlkan kyssti okkur.

Ég snéri mér aftur að borðinu með ljóðabókunum. Og þarna hitti ég Jónas stýrimann aftur. Tæpum fjörutíu árum seinna. Og nú á bók. Ljóðabók, Með sand í augum. Nú rifjaðist upp fyrir mér hálftíminn um borð í varðskipinu í Manitsok. Einnig lofsamleg umsögn hans löngu seinna um hljómplötuna Heyr þú minn söng með Fjölskyldunni fimm. Þá glímdi stýrimaðurinn við manninn með ljáinn.

Svo féll ég fyrir Elíasi Mar, Hinumegin við sólskinið, og loks Helga Hálfdanarsyni, molduxa, rabb um kveðskap og fleira. Þúsund kall. Ég býð, sagði Ásta. Og þá kyssti ég hana. Það er nú lágmark.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.