Jóhanna, Sólrún, Baldvin og prestar í framboði

Ekki hafði Ingibjörg Sólrún þrek til að víkja. Það hefði þó verið réttara. Hvað Jón Baldvin ætlar sér upp á dekk er óskiljanlegt. Getur Samfylkingarfólk ekki einfaldlega kosið Jóhönnu sem formann hvað sem öðru líður? Það sýnist manni einfaldlega blasa við sem eðlileg niðurstaða.

Þegar fundinn er maður til að stjórna Seðlabankanum og reyna að bjarga fjárhag lands og þjóðar, rís upp nokkur hópur fólks sem leggur sig fram um að ómerkja ráðningu hans. Virðist í orðum þess ekki vera mikill áhugi á að skútunni verði bjargað nema með þátttöku þeirra sem vilja að sérhagsmuna þeirra verði gætt. Það sést í gegnum þingmennina sem eru málsvarar hagsmunahópanna.

Alveg er ótækt þegar starfandi prestar fá þá flugu í hausinn að þeir eigi að bjóða sig fram til alþingis. Einhvern veginn sýnist mér þeir gera sig ótrúverðuga í því starfi sem þeir gegna og vandi að sjá að þeir verði heilli í huga á pólitískum vettvangi, þar sem allir tala þvert um huga sinn og segja helst aldrei það sem þeir meina.

Orðið sem gladdi mig mest í morgun var Orðið sem var í upphafi. Í því er ljós og huggun og andi. Orð hafa anda. Almenningur, þar með talinn ég sjálfur, þarfnast huggunar og hvatningar þegar kjör og lífsgæði rýrna vegna afglapa óvandaðra manna sem höfðu völd í nafni stjórnmála og fjármagns.

Orð meistarans frá Nasaret hljóma í afgerandi mótsögn við orð tíðarandans og eru í öllum kynslóðum á sínum stað: „Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur.“

Nú til dags er lítið gert með andlega speki og fáir sem lesa sér til um hana. Sem varla er von í smáþjóð sem kaupir hundraðþúsund reyfara á ári.

Eitt andsvar við „Jóhanna, Sólrún, Baldvin og prestar í framboði“

  1. Hjartanlega sammála. Ingibjörg á að víkja líka og ekki lýst mér á að Jón Baldvin komi til baka. Svo finnst mér að húsbóndinn á Bessastöðum eigi að segja af sér líka og margir fleiri. Kær kveðja.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.