Kona með þrettán fingur

Hún var grönn, nett og meðalhá. Greiddi hárið slétt aftur, utan tvo lokka eins og gyðingalokka, sem lágu niður með vöngunum. Andlit hennar var slétt, augun lifandi og augnabrúnirnar mjó strik. En munnurinn var dálítið sérstakur.

Varirnar voru svo þunnar að þær rúmuðust báðar, efri vör og neðri vör, í einu örmjóu striki. Eldrauðu. Skærrauðu. Munnurinn minnti helst á munn á tuskudúkku, eina af þessum frumstæðu þar sem munnurinn hefur verið teiknaður með einu striki. Og þegar hún einbeitti sér sást enginn munnur. Svo tók ég eftir höndunum á henni.

Hún hafði fallegar hendur. Fallega lagaða fingur og hringi á þeim öllum nema einum. Tvo á sumum. Ég fylgdist með henni vinna og starði á hendurnar. Hringarnir sem hún var með hefðu nægt á þrettán fingur. Hún hafði samt aðeins tíu. Held ég. Kannski ellefu. En hún var glaðleg og eldklár í því sem hún var að gera.

Hún sat á bak við gler, klædd í hvítan slopp og afgreiddi fólk í blóðprufu. Ég borgaði henni með peningum. Hún gaf til baka. Það var gaman að fylgjast með höndunum á henni. Fallegar hendur, fallegir fingur og fjöldi af hringum. En enginn munnur. Það var ekki fyrr en hún kallaði „Næsti“, í þriðja sinn að ég rankaði við mér og settist fyrir framan hjá blóðsugunum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.