Það eru vonbrigði

Raddir gerast háværar um þessar mundir að nú skuli gengið í ESB. Þar sé lausn á flestum vanda þjóðarinnar. Mér varð á að spyrja sjálfan mig; Ef kjósa ætti um það nú, hver væri þín afstaða? Og svaraði sjálfum mér að ég myndi ekki kjósa. Þekki ekki galla og kosti þess að ganga þar inn nóg til þess að treysta mér til þess að kjósa.

Áhugafólk um ESB, hvorutveggja þeir sem eru með inngöngu og þeir sem eru andvígir henni, flytur mál sitt á þann veg oftast að erfitt er fyrir einfaldan verkamann að átta sig á kjarna málsins. En þannig er það jú oftast í öllum þeim kosningum sem þjóðin tekur þátt í. Hvort heldur er til Alþingis eða sveitastjórna.

Áróðursmenn flokka og málefna hanna yfirlýsingar sem líklegastar eru til að tæla fólk til liðs við skoðanir þeirra og hugsa um það eitt að krækja í atkvæði. Virðast meira að segja leggja sig fram um að upplýsa fólk eins lítið og kostur er og jafnvel villa um fyrir því. Það gæti stafað af því að undir yfirborði samræðunnar lægju einatt önnur markmið en þau sem sett eru fram.

Á þessum dögum er tæpitungutækni mjög beitt. Dæmi um það eru ráðleggingar hins norska sérfræðings sem leiðbeinir ríkisstjórninni um hvernig á að upplýsa almenning án þess að upplýsa hann. Og þá álykta ég og mínir líkar að eitthvað sé verið að fela og ef þörf er á að fela þá sé efnið ekki eins þjóðhollt og af er látið. Og það eru vonbrigði.

Eitt andsvar við „Það eru vonbrigði“

  1. Satt segirðu, minn kæri. Nú virðist mér þetta helst snúast um flokkana að reyna að halda í sitt fylgi annarsvegar, og sá fræjum óvissu hinsvegar.

    Ég veit ekki fremur en þú með hverjum eða hverju ég ætti að taka afstöðu, þó lífið lægi við. Til þess þyrfti líklega þaulreyndan klækjaref, þá líklega stjórnmálamann. Þá er betra að standa álengdar og horfa á úr hæfilegri fjarlægð.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.