Fjórar jólastjörnur – og glíman við andskotann

Í gærmorgun átti ég erindi til Reykjavíkur. Ferðum mínum þangað fækkar til muna þessi misserin. Að erindum loknum, akandi um Sæbraut, ákvað ég að ráfa um í Húsasmiðjunni. Til tilbreytingar.

Ráfið hófst í Blómavali. Þar var áfar fátt um viðskiptavini. Starfskona ein hlóð jólastjörnum á borð. Hún fór geyst. Stjörnurnar voru rauðar og fallegar og ánægjulegt að horfa á þær. Ráfið leiddi inn í búsáhaldadeildina, en í mér leynist búsáhaldadella frá frumbernsku. Yfirgaf stundum leikfélaga mína og fór inn til mömmu og sagði: „Eigum við ekki að baka köku?“

Bróðir minn, þrem árum eldri en ég, gerði mikið grín að mér og stríddi mér óbærilega. En alltaf át hann kökurnar sem urðu til. Eftir að hafa gengið um í búsáhaldadeildinni og skoðað allskyns bökunaráhöld og verkfæri stansaði ég við hrærivélarnar. Alltaf er ég jafn skotinn í þeim. Þarna var Electrolux, Krupp og Kitchen Aid. Gasalega hafa þær hækkað í verði. Svo bað ég konuna sem afgreiðir að setja Krupp vélina í gang, hvort hún væri ekki alltof hávær. Hún er það ekki.

Á leiðinni til baka staldraði ég við borð hlaðið rauðum jólastjörnum og nóvember kaktusum? Við það sama borð stóð kona á mínum aldri, ein af þessum venjulegu konum sem er eins og frænka manns og manni finnst maður hafa þekkt alla ævi. Ég spurði hana hvort hún héldi að jólastjörnur lifðu til jóla. Og nú hófst heilmikið samtal. Rautt er litur ástarinnar sagði hún og að sumar gætu lifað til vors, aðrar fallið á viku. Ég keypti tvær. Frú Ásta elskar blóm.

Við Horngluggann
Við Horngluggann

Loks kom ég við í Hagkaupum í Skeifunni. Það er orðið sjaldgæft. Á útleið við kassann var allt í einu gripið í mig og voru þar á ferð gamlir skjólstæðingar úr Samhjálp. Þau eru miklir áfengissjúklingar og hafa aldrei náð árangri nema stuttan tíma í senn. Nú voru þau í svo fínu formi, edrú og vel til fara og voru að kaupa lítilræði í handkörfu.

Andlit þeirra eru mörkuð af sjúkdómi þeirra, löskuð eftir styrjaldir og baráttu og glímu við andskotann. En nú voru þau svo fín og konan kyssti mig á kinnina aftur og aftur og félagi hennar hélt í hönd mína og þetta voru fagnaðar- og elskuríkir vinafundir og ég varð svo glaður í hjarta mínu og þakklátur og uppgötvaði að nú átti ég fjórar jólastjörnur.

2 svör við “Fjórar jólastjörnur – og glíman við andskotann”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.