„Nú sem við erum staddir bakvið leiti, þá veltur sá fróðleikur upp úr einum í hópnum, að hver maður sem fari yfir girðingu af þessu tagi verði sekur um tíu krónur […] Meðþví nú glæpur þessi bar í sér alla þá lokkun sem fylgir fjárglæfrum, tókum við okkur til allir saman og fórum að hoppa yfir gaddavír.[…]
[…]En svo fór sem okkur hafði reyndar grunað, einginn tók eftir því ódæði sem við vorum að fremja og við vorum ekki sektaðir. Slík réttmæt fjársekt, sem við vorum ekki krafðir um, var fundið fé. […] Þarna hafði nú sérhver okkar grætt sem svarar veturgömlum sauð þegar í fyrstu lotu.“ Brekkukotsannáll. Halldór Kiljan Laxness. Bls 46
Það var í morgun yfir kaffinu og dagblöðunum að augu mín stöldruðu við heilsíðu auglýsingu á blaðsíðu fimm. Hún var í lit. Efni hennar var:
Jólahlaðborð Perlunnar 20. nóvember – 30. desember – Verð 7.250 kr. Tilboð mánudaga – miðvikudaga 6.250 kr.
Ég las auglýsinguna yfir í rólegheitum, þótt ég hafi fyrir reglu að fletta framhjá heilsíðu auglýsingum. Svo ákvað ég að trufla frú Ástu sem einnig las í blaði og sagði:
„Veistu hvað?“
„Nei. Hvað?“
„Við getum stórgrætt.“
Þá leit frú Ásta upp enda krepputímar og lítið um skotsilfur. Hún spurði:
„Hvernig?“
„Við pöntum fyrir tvo á jólahlaðborð í Perlunni.“
„Er það ekki svakalega dýrt?“
„Jú. Það er það. En svo bara mætum við ekki.“
Nú horfði frú Ásta á mig án þess að segja orð. Ég bætti við:
„Með því móti spörum við –tólfþúsundogfimmhundruð krónur-.“
Hún horfði enn á mig. Þögul. Spyrjandi. Ég bætti við:
„Það dugar fyrir mat handa tveim í tólf daga.