Dularfull reikningsskil á þjóðhátíð

Eins og ég gat um í gær þá hafði Ásta boðið okkur út að borða í tilefni dagsins. Það er ekki oft sem við gerum slíkt og ég gjörsamlega ófær um að velja veitingastað. En Ásta átti pantað borð fyrir tvo klukkan sjö. Við ákváðum að ganga einn rúnt í miðbænum áður en við mættum.

Veðrið var skínandi. Fólkið var skínandi. Skínandi blöðrur og allskonar leikföng. Börn og foreldrar. Ný kynslóð. Barnabörn okkar kynslóðar. Við gengum niður Laugaveg. Yfirvegað vegna beinagrindarinnar. Bankastræti, Lækjartorg, Austurstræti, Austurvöll, Templarasund, Lækjargötu, Bankastræti og upp Laugaveg. Allstaðar var fólk. Fullt af fólki. Velklæddu, fallegu og hressu fólki. Margir með börn. Einstaka afi og amma.

Við þekktum aðeins einn mann nóg til þess að heilsa með handabandi. Öðruvísi mér áður brá. Svo settumst við inn á veitingastaðinn og fjálglega talandi Króati tók á móti okkur. Þvílíkur orðaflaumur. Ég bað hann að endurtaka allt sem hann hafði sagt, hægt og rólega. Við skildum ekki fyrr en í fimmtu lotu hvað maðurinn var að segja okkur með öllum orðaflaumnum.

„Þið mega fá allt sem þið viljið í kvöld, eins mikið og þið viljið, það búið að borga.“ Ég hugsaði: Einn útlendingsvitleysingurinn enn, og sagði við Ástu: „Skilur þú manninn?“ Hún sagði: „Ég held að hann sé að segja að það sé búið að borga fyrir okkur allt sem við borðum og drekkum í kvöld.“ „Hvernig má það vera?“ spurði ég.

„Ég vera Króati,“ sagði fjálgurinn, „ég núna bjóða Mojito.“ „Hvað er Mojito?“ spurði ég. „Það vera soda, það vera lime juice, það vera minta lauf, það vera romm og það vera sykur.
Mjög bragðgott.“ Eftir hæfilega langa stund pöntuðum við mat. Ásta valdi nautalund með piparsósu. Ég valdi T-bein steik með ljúfa endurminningu frá París í huga.

„Ég frá Kýpur,“ sagði þjónninn sem bar fram matinn. „Kalispera,“ sagði ég . „Nei,“ sagði hann, „ég frá tyrkneska hlutanum.“ Jæja karlinn, hugsaði ég og velti fyrir mér hvort forfeður hans hefðu heimsótt Vestmannaeyjar fyrr á árum. Sagði: „Er gott að vera Tyrki á Íslandi?“ „Já,“ sagði hann „mjög gott.“ Hann var kurteis og hógvær.

Ung stúlka, svarthærð, grannvaxin, nett og fremur fríð, bar fram sósur. Piparsósu og béarnaisesósu. „Gott kvöld,“ sagði ég og brosti til hennar. „Sorry, do not speak Icelandic. Italian.“ „Ah. Italian. Buona sera,“ sagði ég og brosti enn meir. Leit á Ástu og sagði: „Það er eins og við séum í útlöndum.“

Eitt andsvar við „Dularfull reikningsskil á þjóðhátíð“

  1. Þetta er bráðfyndin lýsing. Til hamingju með árin öll, flokkast undir magnað úthald nú á dögum! Og til lukku við degnum í gær eins og við segjum í Færeyjum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.