Hróp listamannsins

„Þegar ég hugsa til ykkar, fyllist hjarta mitt dalaliljum.“ Með þessum orðum í bréfi söngvarans mikla, Achille Papin, til systranna Martínu og Philippu, hefst innkoma madame Babette Hersant í hina framúrskarandi skáldsögu Karenar Blixen, Gestaboð Babette.

Það er sautjándi apríl í dag. Fæðingardagur dönsku skáldkonunnar Karenar Blixen. Hún var dásamlegur rithöfundur. Í tilefni dagsins las ég Gestaboð Babette eitt skiptið enn. Það er eins og að drekka eðalvín úr handskornu kristalsglasi. Maður fer sér undurhægt, skimar mjöðinn og nýtur hvers einasta dropa.

Eðalvín

Gestaboð Babette er mögnuð bók. Hún segir frá nokkrum meginþáttum í samlífi fólks, ástinni, listinni, trúarkreddum. Við lesum um forpokaðan, þröngsýnan, söfnuð sem lifir í þeirri trú að Guði sé það þóknanlegt að fólk „hafni allri veraldargleði og heiminum og öllu sem hans er. […] og hinn sanni veruleiki […] var hin nýja Jerúsalem.“

Liðsforinginn Lorens Lövenhielm, ungur glaumgosi með fortíð, kemur inn í þetta storknaða samfélag og verður yfir sig ástfanginn af annarri systurinni, Martínu, sem hann ekki fékk og varð aldrei samur maður eftir það.

Ári síðar kom söngvarinn mikli, Achille Papin, frá París, til Berlevogs. Rödd hinnar systurinnar, Philippiu, töfraði hann sem og stúlkan sjálf. Þau sungu saman hlutverk úr óperu Mozarts „Don Juan“, hún Zerlínu, hann Don Juan. Í hrifningarvímu kyssti herra Papin stúlkuna en kossinn sá varð til þess að hún hafnaði honum.

Þriðja persónan sem kom óvænt inn í þetta aflokaða samfélag var listamaðurinn Babette, „hundeltur flóttamaður, nær sturluð af sorg og skelfingu.“

Við lesum síðan um eina glæsilegustu matarveislu bókmenntanna, Gestaboð Babette. Yndisleg frásaga sem steypir saman þessum ótrúlegu andstæðum við tólf manna veisluborð. Lesandinn fylgist með borðhaldinu, undrandi og heillaður, heillaður og undrandi og veltir fyrir sér hvað höfundurinn er að fara með sögunni. Það er verðugt viðfangsefni sem hugsanlega felst í þessu svari Babette:

„Giv mig lov, giv mig Lejlighed til at yde mit ypperste.“

Eitt andsvar við „Hróp listamannsins“

  1. Já, til hamingju með daginn! Karen Blixen er yndislegur rithöfundur. Hennar skál í handskornu kristalsglasi!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.