Sörli kaupir nýjan bíl

Við unnum við Búrfellsvirkjun þá. Um þrjú hundruð manns í kamp tvö. Hann var staðsettur uppi á fjallinu. Í kamp eitt, sem var niður við stöðvarhús, voru miklu fleiri. Þegar komið var úr helgarfríi, á mánudagsmorgnum, voru menn yfirleitt innhverfir og fámálugir framan af degi. Hugurinn væntanlega enn hjá eiginkonum og börnum og tregi í sálinni. Nema Sörla.

Sörli var sérstakur maður. Hann var ættaður lengst norðan af Ströndum. Hann var stór og mikill og ók vörubíl á svæðinu. Hann virtist aldrei vera í neinu basli með tilfinningar sínar og hafði heldur gaman af félögunum þegar þeir voru með hugann í heitum faðmi eiginkvennanna sem þeir urðu að slíta sig frá eldsnemma til að mæta á réttum tíma í fjöllin.

Svo þegar komið var hádegi flykktust allir upp í mötuneyti, illa sofnir og soltnir og fámálugir. Nema Sörli. Það kjaftaði á honum hver einasta tuska. Hann átti sæti við fremsta borðið í mötuneytinu. Þar voru ýmsir fyrirmenn einnig, flokkstjórar og verkstjórar. Þeir sátu þar sex saman. Þegar menn höfðu borðað um stund, þöglir og niðursokknir, rétti Sörli allt í einu úr sér og sagði: „Ég keypti nýjan bíl um helgina.“ Menn hættu að borða og litu upp og horfðu á hann spyrjandi.

„Já, alveg nýjan, ókeyrðan, bætti hann við.“ Enn voru menn þöglir því að á þeim árum þekktust ekki bílalán og því ekki daglegur viðburður að verkamenn keyptu nýjan bíl. „Hvaða tegund?“ spurði einn loks. „Opel. Opel station,“ sagði Sörli og setti hlaðinn gaffalinn upp í sig. Þegar hann hafði kyngt skammtinum bætti hann við: „Hann er rauður. Flottur, og með útvarpi.“ „Og komstu á honum?“ spurði annar. „Nei. Þeir voru að gera hann kláran.“

Borðnautar Sörla horfðu á hann skeptískir á svip. Einn spurði: „Ertu ekki að ljúga eina ferðina enn.“ „Ljúga, ég, nei sko ekki. Ég get sýnt ykkur pappírana,“ sagði hann og dró upp veskið sitt og sýndi þeim happdrættismiða í einhverju styrktarfélagi. „Það verður dregið á laugardaginn kemur, “ sagði hann og hló eins og hestur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.