Þverárrétt

Hefur þú komið í Þverárrétt í Þverárhlíð í Mýrasýslu? Ég stefni þangað á morgun, mánudag. Mæti um níuleytið. Fer einn.

Fánar

Fánar yfir réttarhliðinu. Annar er í hálfa stöng til að minnast fallins réttarstjóra. Það var fyrir ári.

Fé og fólk

Ennþá er fleira fé en fólk. Breytingar eru þó miklar.

Skorið úr um fjármark

Skorið úr um fjármark. Hendur Ása á Högnastöðum þreifa eyrun. Myndin er tekin 2005. Ásmundur féll frá í fyrra.

Ólafur frá Grjóti

Ólafur á Grjóti. Hann verður ekki með oftar. Hann er farinn til feðra sinna.

Ær í almenningi

Þessar tvær hafa komið áður og fært eigendum sínum arð af fjalli.

Bekrar í túni

Á túnflöt austan við bæ einn, skammt frá lækjar sytru, eru þrír hrútar í girðingu. Þeir hafa verið þar í allt sumar. Yfir þeim hvílir stóisk ró. Þeir ræða málið:

Bekri 1: Stór dagur á morgun.
Bekri 2: Hvað er á morgun?
Bekri 1: Stelpurnar koma af fjalli.
Bekri 3: Koma þær á morgun? Ég get ekki legið kyrr.

————————————————————
Það væri gaman að sjá þig í réttunum. Í alvöru.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.