Enska og myntska

Íslenskir fjármagnseigendur hafa miklar sérþarfir. Þarfir sem koma fjármagni þeirra vel og auka gróða og skilvirkni þess. Íslenska krónan er þeim til trafala. Þeir vilja leggja hana af og taka upp evrópumynt. Íslensk tunga er þeim til trafala. Þeir vilja leggja hana af, í viðskiptum til að byrja með, og taka upp enska tungu.

Auðmaður gaf háskóla milljarð króna. Það er auðvitað glæsilegt. Fleiri munu fylgja fordæminu.Ungmenni framtíðar munu læra meira um vanmátt Íslensku krónunnar og töframátt Evrópumyntar. Á ensku að sjálfsögðu. Það ætti ekki að taka nema fimm til tíu ár að gróðursetja þau viðhorf í hugarheimi námsmanna, hvernig fjármagni verður best þjónað. Fjármagnseigendabókaútgáfa gæti einnig lagst á árarnar og gefið út námsefni fyrir velviljaða háskóla. Frítt.

Það ber allt að sama brunni. Fjármagninu allt. Fjármagnseigendunum allt. Ekki verður annað séð en stjórnmálamenn séu á sömu skoðun. Þeir hafa fylgst með þróuninni og gefið henni lausan tauminn. Svo beislar fjármagnið stjórnmálamennina. Það gæti reynst erfitt í framtíðinni að vera Íslendingur sem talar íslensku og kaupir í matinn með krónum. En kynslóðir líða undir lok og nýjar taka við og þeim þarf að kenna ensku og myntsku. Fyrir slóð fjármagnsins.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.