Er maður þá hugsanlega ekki?

Getur það átt sér stað að maður sé ekki? Og að þótt maður sé þá sé maður ekki. „Að vera eða vera ekki var spurning Shakespeare´s um árið. Ætli margir velti þessu fyrir sér nú á tímum þegar langflestir virðast vera á trylltum flótta undan óskilgreindri ástæðu? Kannski þeir gáfuðu eða þeir menntuðu. Það fara samt ekki nærri alltaf saman gáfur og menntun. Nei, sko ekki. Það er sitt hvað.

Mér er nær að halda að flestir veigri sér við að hugsa um þetta. Hvort þeir eru eða eru ekki. Og af hverju ætli þér veigri sér við því? Það gæti verið vegna þess að innst inni óttist flestir að þeir séu ekki þótt þeir ímyndi sér að þeir séu. Góðar bækur fjalla um spurningu eins og þessa. Og kannski fjalla allar alvöru bækur einmitt um spurningu eins og þessa, jafnvel þótt höfundarnir séu ekki meðvitaðir um það. Ég sagði góðar bækur. Þær sem lifa tímann af.

Æ, það er ekki auðvelt að koma orðum að þessu. Til þess að vera verður maður að hafa gert sér grein fyrir því hvort maður er. Og þegar farið er að pæla í því af einhverri alvöru vakna margskonar spurningar eins og til dæmis þessi: Getur það átt sé stað, þrátt fyrir allt, að maður sé ekki og að allt sem fólk telur sér trú um að það sé sé villa eins og nýju fötin keisarans?

Og að allt sem maðurinn sækist eftir og berst fyrir alla ævi sína sé einfaldlega strit eftir vindi og hégóma. Og öll sú leit sem hann hefur stundað í gegnum aldirnar og nýjar kynslóðir tóku upp að þeirri fyrri genginni komi ávalt ávalt að sömu niðurstöðu, að „sólin rennur upp og sólin gengur undir og vindurinn snýst og hringsnýst?“

Svar gæti verið svo miklu nær en nokkurn grunaði þegar hann hóf sína pælingu, og Steinar bóndi í Hlíðum undir Steinahlíðum orðaði á eftirfarandi hátt:

„En nú skiftir mestu máli að reisa við aftur þennan vallargarð.“ (HKL. Paradísarheimt.)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.