Flett upp í farangrinum

Í fyrsta lagi útbjó ég grænmetissalat. Reif niður salatblöð og iceberg, skar í sundur blá vínber og hálfa appelsínu í litla bita. Hrærði milda dressingu til að setja út á. Þvínæst var það humarsúpan hennar Ástu, en Ásta andvarpar alltaf þegar þessi súpa er á boðstólum og því veruleg ánægja að bjóða hana. Heimabakað naanbrauð og smjörklípa með.

Aðalrétturinn var svo lax. Hafði keypt heilan lax, fjögurra punda, sem ég skar sjálfur í hæfilega bita eftir að hafa beinhreinsað hann. Eldaði hann í smjöri á pönnu. Með laxinum voru hvítar tilskornar kartöflur og dverggulrætur. Með þessu fengum við ljúffengt hvítvín, Rosemount Diamond Label Chardonnay. Þetta var máltíð með ljóma.

Hátíðleikinn tengist deginum en við hjónakornin opinberuðum sautjánda júní fyrir hart nær hálfri öld. Það gerðum við heima á Bjargi við Suðurgötu. Í húsi móður minnar. Þótt hún blessunin væri fjarstödd daginn þann. Þvínæst fórum við niður á Gildaskála í Aðalstræti og snæddum lax. Sæl og glöð með lífið og tilveruna og hvort annað og munum ekki mikið eftir máltíðinni né fólkinu á næstu borðum. En við munum eftir hvort öðru og hve upptekin við vorum hvort af öðru og tilfinningahjúpnum sem umlék okkur. Þess vegna höfum við reynt að halda þennan sið, að borða lax sautjánda júní, í öllum þeim veðrabrigðum sem lífið lætur í té.

Að sjálfsögðu vorum við um helgina uppi í Borgarfirði í litla tómstundahúsinu okkar, Litlatré. Fjöllin voru öll á sínum stað í hring umhverfis okkur og veðrið skartaði sínu fegursta og Gunnbjörg litla kom og borðaði með okkur og við flettum upp í farangri hugans og skröfuðum og skvöldruðum tímunum saman. Þetta var ánægjulegur veisludagur.

Vísa ég í lokin til eldri pistils: Sjá hér

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.