Hraustir menn

Vinnuhópurinn samanstóð af verkamönnum, járnsmiðum og rafvirkjum. Við höfðum tekið stóru steypustöðina í Búrfelli niður og flutt hana upp í Vatnsfell. Þetta var átakavinna sem krafðist duglegra samstilltra manna. Að þessu komu einnig stór bílkrani frá Landsvirkjun og trailerar frá verktakanum. Það var tignarleg sjón að sjá þá aka í röð með þessi ferlíki á vögnunum, steypustöðina í hlutum og sílóin. Líkast geimskutluflutningum.

Eins og flest verk sem verkfræðingar áætla um tímaþörf fyrir var tíminn til þessa flutnings of knappur. Það þýðir að verkfræðingarnir gera áætlun um að vinna verk án yfirvinnu. Til að spara. Undir verklok verður reyndin oftast sú að menn eru beðnir um að vinna án hvíldar eins og þolið leyfir. Við það tapast auðvitað allur sparnaður og meira til, því kostnaðurinn margfaldast. Þetta gerist allt of oft og flokkast með þeirri fagmennsku að pissa upp í vindinn.

Við unnum því án hvíldar í lokahrinunni. Steypustöðin var á þrem hæðum. Neðsta einingin var undirstöður, einskonar fætur sem hún stóð á og hægt var að aka steypubílum undir. Síðan hæðin með stjórnstöðinni og þar fyrir ofan sílóin með sandi og möl af mismunandi kornastærðum. Og sements tankarnir. Byggingakrana var komið upp við hlið stöðvarinnar. Hann átti að hífa steypu beint frá stöðinni út í lokuvirkið. Þegar búið var að raða saman öllum stóru hlutum steypustöðvarinnar var komið að rafvirkjunum.

Þúsund vírar, vírar af allskonar litum og sver leikum, flækja, beið eftir því að verða tengd í stjórnborðinu. Vírar sem náðu til allra hluta stöðvarinnar og sílóanna. Menn voru teknir að lýjast. Fyrstu 48 tímarnir að baki. Það var á morgni föstudags. Margræður gálgahúmör (sem ekki er hægt að hafa eftir) braust út í samræðum manna. Húmör sem verkaði eins og áskorun og hvatning um úthald. Fyrstu steypu átti að framkvæma á laugardegi. Samkvæmt verkáætlun.

Við ákváðum að haldan út. Nú mæddi mest á rafvirkjunum. Takkarnir urðu að framkvæma réttar skipanir. Það væri ekki gott ef þeir sendu vatn þegar beðið var um sement. Rafvirkjarnir tengdu og prófuðu og tengdu aftur og prófuðu og loks virtist allt ætla að virka rétt. Þegar fyrsta prufusteypan var send niður í steypubíl reyndist hún alltof þunn og til einskis nýt. Enda voru menn orðnir dálítið skrítnir af þreytu og svefnleysi. Ákveðið var að hefja stórsteypu eftir fjögurkaffi.

Kranamaðurinn kom um tíuleytið á laugardeginum og spurði hvort það væri nokkur vegur að hann fengi frí til klukkan fjögur, fram að steypu. Hann ætti brýnt erindi til Reykjavíkur, erindi sem hann gæti ekki sleppt. Var honum veitt fríið og sagt að reynt yrði að finna annan kranamann ef hann væri ekki kominn til bka. Næstu klukkustundir fóru svo í að fínstilla stöðina og allt virtist í besta lagi þegar farið var í kaffi.

Þegar við komum úr fjögur kaffi, tilbúnir að hefja slaginn, sáum við kranamanninn sem fengið hafði frí um morguninn, klifra upp í byggingarkranann og koma sér fyrir. Ég opnaði talstöðina og spurði hann hvort allt hefði gengið að óskum. „Mjög svo, mjög svo,“ svaraði hann glaðlega. „Og megum við spyrja hvaða erindi var svona brýnt?“ „Já, já,“ svaraði hann, „það er nú líkast til. Ég gifti mig. Klukkan eitt.“

2 svör við “Hraustir menn”

  1. Já og flestir skilja ekki hvað um er skrifað. Takk.

  2. Tegund þessi finnst því miður ekki lengur á landi hér,en gott er að geta vitnað í hana. Takk fyrir góða sögu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.