60 krónur á þúsund-kallinn

Það er ávinningurinn af vaskbreytingunni. Ætli það breyti miklu fyrir fólk? Hvernig umgangast Íslendingar 60 krónur? Stundum þegar ég sá ungar mæður keyra tvær kúffullar innkaupakerrur að kassa í Bónus þá rifjaði ég upp tilveru okkar Ástu minnar fyrir mörgum árum síðan. Við vorum átta í heimili. Átta til tíu innkaupapokar í viku. Dagvinnulaunin mín fóru alfarið í húsaleigu. Við keyptum mat fyrir yfirvinnulaunin. Stundum var engin yfirvinna.

Fyrir nokkrum dögum fylgdist ég með ungri mömmu kaupa inn. Hún greiddi um 16.000 krónur fyrir vörurnar. Lækkunin í dag, á þessi innkaup konunnar, jafngildir 960 krónum. Það skilar um 50.000 krónum á ári. Auðvitað væri mikill fengur að fá ávísun upp á 50.000 krónur fyrir jólin. En hvað gera 960 krónur fyrir mann? Tólf lítra af kók? Reyndar veit ég ekki hvað kók kostar. Kaupi það ekki. Unga móðirin var með tvær svoleiðis kippur í innkaupakerrunni.

Á þessum fyrri árum, árunum okkar Ástu þegar við vorum enn í barneign og ég er að rifja upp, kom ríkisstjórn þess tíma með mjög uppörvandi tillögu um að hækka barnabætur. Sem hún og gerði. Svo liðu fjögur ár og þá lækkuðu barnabæturnar aftur. Ríkisstjórnir eru að meðaltali alls ekki barnvænar. Man eftir einu dæmi sem kostaði nokkurn úlfaþyt í tvær eða þrjár vikur. Þá voru lækkuð vörugjöld á gosdrykki. Ekki á barnamat.

Oft er sagt að margt sé kúnstugt í kýrhausnum. Og spurning vaknar: af hverju ætli allir sem kjörnir eru á þing skuli setja upp kýrhaus þegar þangað er komið. Ég tala nú ekki um þegar þeir setjast í ráðherrastól. Þá er eins og það verði tveir kýrhausar á hverri manneskju. Eða er annar hausinn kannski nautshaus. Það kallar á máltækið að vera nautheimskur.

Ég hlustaði á Siv heilbrigðisráðherra í Kastljósi í fyrrakvöld svara gagnrýni á vanefndir ríkisstjórnarinnar í málefnum heilabilaðra. Á móti henni sat Hanna Lára Steinsson, félagsráðgjafi, geðsleg kona, sem vissi upp á hár hvað hún var að segja og sýndi fram á það með gögnum sem hún hafði fyrir framan sig. Siv hefði betur setið heima.

Eitt andsvar við „60 krónur á þúsund-kallinn“

  1. Góður! Já svo eru stjórnmálamenn steinhissa á að fólk hafi ekki traust á þeim.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.