Tvær afburða bækur

Við skiptumst á bókagjöfum fyrir skömmu, hjónin. Hún fékk Ólafíu, ævisögu Ólafíu Jóhannsdóttur, fágætrar afburða konu, ég fékk Upp á Sigurhæðir, sögu Matthíasar Jochumssonar, eins af ástmögum þjóðarinnar. Við lesum þessar bækur á aðventunni, látum þær anda inn í okkur frásögum af lífi og starfi þessara miklu hetja. Það er við hæfi þar sem aðal þeirra beggja, Ólafíu og Matthíasar, var trúin á Guð, kærleika hans og óendanlega elsku.

Við Ásta kynntumst Ólafíu þegar við eignuðumst bók hennar, Aumastar allra. Það var fyrir liðlega fjörutíu árum. Sú bók var gefin út af Arthuri Gook á Akureyri 1923. Inn í hana hef ég sett úrklippu úr Morgunblaðinu frá 8. febrúar 1990, en þar segir, frá fréttaritara blaðsins í Ósló: „Ákveðið hefur verið að nefna götu í Ósló eftir íslenskri konu, Ólafíu Jóhannsdóttur, en á fyrri helmingi þessarar aldar vann hún mikið og gott starf að málefnum fátæks fólks í hverfunum Vaterland og Grönland í miðborginni.“ Hverfi þessi voru fátælingahverfi og frelsuð „gerði hún ( Ólafía) sér heimili meðal vændiskvenna, fátæklinga og drykkjumanna“.

Matthías Jochumsson þarf ekki að kynna. Hann þekkja allir Íslendingar af sálmum hans sem enn eru sungnir í kirkjum landsins og ná ætíð að snerta við hjörtum tilheyrenda með trúareinlægni og málfegurð. Og ekki má gleyma þjóðsöngnum okkar, „Ó, Guð vors lands! ó, lands vors Guð, vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn.“

Báðar eru bækurnar skrifaðar af konum, frábærum höfundum. Ævisaga Ólafíu er rituð af dr. Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur, mannfræðingi, bókin Upp á Sigurhæðir er skráð af Þórunni Erlu Valdimarsdóttur, sagnfræðingi. Það er mikill fengur að báðum þessum bókum og auðsýnum við höfundum þeirra og útgefendum innilegt þakklæti.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.