Það er ekki oft sem fólk heyrir allsherjar AMEN frá alþingi Íslendinga. Það gerðist þó þegar borin var fram fyrir fáum árum tillagan fræga um eftirlaun alþingismanna. Þá heyrðist þetta risavaxna AAAMEEEN úr öllum hornum. Og atvinnuvinir fátæka fólksins létu ekki sitt eftir liggja og brýndu raustirnar svo að hljómaði um þjóðarheim allan.
Þetta rifjaðist upp fyrir mér 1. des. síðastliðinn, þegar greiðsla ellilífeyris kom inn á heimabanka minn: Samtals til útborgunar 17.197. Og hugur minn leitaði til baka. Við vorum að taka á móti spírum, það er efni til fiskitrönugerðar, á stakkstæðinu neðan við Hólabrekku og vestan við Þormóðsstaði, þar sem nú heitir Lynghagi.
Þetta var í janúar og það var frost og gekk á með byljum. Spírurnar voru ísaðar enda fluttar til landsins í stórum stæðum á dekki skipanna. Við tókum þær af vörubílunum með höndunum. Það þurfti að stafla þeim vel. Við áttum ekki vettlinga. Þegar hendurnar voru orðnar dofnar af kuldanum reyndum við að berja okkur til hita og ég man að ég stakk þeim í handarkrikann inn á mig beran. Ég var fjórtán ára.
Eins og aðrir verkamenn hef ég allar götur síðan orðið að vinna langan vinnudag. Dagvinnulaunin nægðu sjaldnast fyrir húsaleigu. Til að framfleyta átta manna fjölskyldu þurfti mikla yfirvinnu. Kvöld og helgar. Og var Guði þakkað fyrir yfirvinnuna. Þegar hún fékkst. Þegar erfiðast var bað maður kunningja að kaupa myndavélina. Einnig litlu ritvélina sem vantaði béið í. Og keypti mat. Eitt sinn neyddist ég til að selja bækur úr heimilinu. Það var sárast.
Samtals til útborgunar: 17.197. Til að hjálpa til við reksturs heimilisins hefur kerfið hækkað kostnað við íbúðakaupalánið um kr. 6.000 á mánuði, á fjórum árum. Kerfið er að sjálfsögðu afurð alþingismanna. Og manni heyrist á kjaftavaðli og sjálfsöryggi flestra þeirra að þeir ætlist til þess að fólk beri virðingu fyrir þeim. Hvernig í ósköpunum á það að vera hægt? Þeir halda fólki við fátæktarmörk alla ævi þess.
Reynslan sýnir að alþingismenn eru hvergi sameinaðir í einum huga nema í málefnum þeirra eigin hagsmuna. Þá hljómar AMEN – ið eins og hinn eini sanni tónn.