Vikusálin mín I

Morguninn varð öðruvísi. Það er af því að „ég er ofurseldur tvennskonar lunderni sem skiptist reglulega á […].“ Það hófst við horngluggann. Ég fjasaði um aðhald og nauðsynlegan sparnað í fjármálum. Það endaði með því að Ásta stóð upp og tók til við annað. Þessu lendir maður í. Ég lagaði þá tvöfaldan skammt af karríblöndunni minni. Nota eigin uppskrift. Hef lítinn hvítlauk.

Næst var rakarinn á dagskrá. Úr því að alskeggið var farið þá var eins gott að stytta hárið líka. Hef þó verið að safna hári í hálft ár. En Ásta, sem kom söfnuninni af stað í haust, var orðinn leið á henni og hefur verið að nudda í mér að láta klippa mig eðlilega. Hvað er eðlilegt? spurði ég á móti. Hrönn orðaði þetta á annan veg. Enda elskuleg stúlka.

Þegar hún hafði lesið í pistli á heimasíðunni að ég hafði rakað af mér skeggið þá spurði hún svo elskulega: „Svo ertu búinn að raka af þér skeggið! Hvað með hárið, fögru lokkana þína, tókstu þá af líka?“ Ég hef nú bara aldrei heyrt annað eins. Fögru lokkana! Ekki nema það þó. Fögru lokkana! Ja, hér.

Rakarinn byrjaði með því að skenkja mér kaffi við palesanderinn á bak við. Við ræddum gróðursetningar og áburð og byggingafulltrúa og Kötluhlaup. Og væntanlegar kosningar. „Já, maður getur ekki kosið neitt annað, jafnvel þótt mann langi það stundum.“ Hann sagðist leysa krossgátur í sveitinni. Hvar sem hann sæti. Var hinn hressasti. Strandamaður í húð og hár. Við ætlum báðir að kjósa utankjörstaða.

Vikusálin í mér var nú komin á skrið. Treysti sér til að tala um hvað sem var við hvern sem var. Fór því næst í heimsókn í Valhöll. Gunný er þar að vinna fyrir flokkinn í utankjörstaðadeildinni. Þar fékk ég meira kaffi. Ræddi við samstarfsmann hennar, Óskar, karl á mínum aldri. Hann er úr Borgarnesi. Við ræddum fyrri tíma, s.s. Dóra bílstjóra hjá Kaupfélaginu og Aðalstein á mjólkurbílnum sem söng svo laglega þegar hann var mjúkur. Og ýmis korn úr héraðinu. Svarfhólsbændur og Hlöðutúnsfólk.

Heimir Sindrason tannlæknir er þarna á sömu hæð og flokkurinn. Mig langaði að heilsa upp á karlinn. Við vorum saman á bóklegu námskeiði til einkaflugmanns fyrir margt löngu. Spurði stúlkuna við símann hvort ég fengi færi á þessu. Hún tók því vel og spurði um nafn mitt. Heimir spurði hana hvort maðurinn væri með skegg. Hún kvað nei við því. Það leist honum ekki vel á. Þekki engan skegglausan Óla. Hann kom samt fram. Ég spurði hvort við ættum frekar að fljúga saman eða syngja saman. Við heilsuðumst hlýlega. Og kvöddumst. Það var nokkuð af fólki í biðstofunni.

Þessu næst lá leiðin inn í IKEA. Ástu vantar skáp undir handlaug í Litlatré. Ég átti innleggsnótu frá í fyrra. Hún missir gildi á tólf mánuðum. Fékk útskrift á skáp hjá ungri stúlku og … …þegar að matsalnum kom önduðu sænsku kjötbollurnar framan í mig. Það er alveg satt. Þær bókstaflega önduðu framan í mig. Vikusálin sagði að nú skyldi ég falla fyrir bollunum. Þetta væri rétti tíminn. Þá reis vogin upp og tók að hika. Á ég eða á ég ekki? Vikusálin vann.

Ég fékk sæti við eina lausa borðið. Þarna var allskyns fólk. Ungar mæður með börn. Rosknar mæður með dætur sem voru með börn. Vinnukarlar úr nágrenninu. Flott kona frá Taílandi með flottum Íslendingi og flott Ís-Taí barn. Eða eigum við að segja Taís- barn. Svo komu þarna þrír vinnufélagar og skimuðu eftir borði. Vikusálin sá sér leik á borði og bauð þeim að setjast hjá mér. Svo hóf hún að spjalla við þá:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.