Vikusálin mín II

Vikusálin hóf samtalið. Spurði mennina hvað þeir störfuðu. Byggingavinnu. Hvað þeir gerðu á vinnustað. Mótauppslátt og járnabindingar. Þá hýrnaði yfir vikusálinni. Hún hafði unnið við járnabindingar fyrir hálfri öld eða svo. „Þá var verið að skipta úr rúnnjárni yfir í kambstál og tentor. Fengum sama verð fyrir kílóið og greitt var fyrir rúnnjárnið. Græddum heilmikið. Það var svo miklu meiri þyngd í kambstálinu. Og beinar stangir í súlum og mottum.“

Menn náðu vel saman og sögðu sögur af atvikum og nutu sænsku kjötbollana og vikusálin var farin að trúa því að hún væri í vinnu með mönnunum. Þegar hún sagði jæja eins og gamall verkstjóri, stóðu allir upp og yfirgáfu matsalinn. Eftir að skápurinn var afgreiddur og ég kominn út í bíl var klukkan ekki orðin nógu margt fyrir vikusálina til að fara heim. Hringdi því í vinnuna til Ástu.

„Sæl Ásta mín, ertu á fundi?“ „Sæll Óli minn. Nei, ég er ekki á fundi.“ „Getur þú talað Ásta mín?“ „Já, ég get talað Óli minn. Ertu búinn að láta klippa þig.?“ „Já, ég er búinn að láta klippa mig.“ „Ertu þá ekki sætur?“ „Jú, Ásta mín, ég er alveg gullfallegur.“ „Jeminn, hvað ég hlakka til að sjá þig.“ „Viltu að ég komi í vinnuna til þín svo þú getir séð mig, Ásta mín?“ „Nei, ég reyni að sitja á mér, Óli minn.“

Svo ræddi ég við hana erindið sem var hvort ekki væri kominn tími til að fá Gunnbjörgu í kvöldmat. Það væri svo langt síðan hún hefði litið við. Ásta var til í það. Ég stakk upp á skankasúpu, sem við köllum svo. Ásta samþykkti það. Ég ákvað að fara í Hagkaup í Kringlunni. Þar er grænmetið best og þar fæ ég sérsmíðaða skanka ef Svanur er á vakt í kjötinu. Svanur var á vakt.

Brosmildur og hlýr óskaði hann mér til hamingju með rektorinn. Takk fyrir það, sagði ég og Guð blessi þig. Þá brosti hann enn elskulegar því hann er í svo góðu sambandi við almættið. En við kynntumst nefnilega fyrir mörgum, mörgum árum, hjá almættinu. Þá var hann að trúlofast Maríu sinni. Það tókst ágætlega hjá henni. Svo tíndi ég saman sellerístangir, paprikur rauðar og gular, gulrætur og lauk. Annað var til heima.

Vikusálin spurði stúlkuna á tíu stykkja kassanum hvort hún væri ekki til í að borga fyrir mig í tilefni dagsins. „Hvaða dags?“ spurði stúlkan. „Útborgunardags.“ Þá sagðist hún alltaf vera kominn á mínus á öðrum degi eftir útborgun. Það er eins með mig. Er bara plúsmegin eina nótt um mánaðamót.

Nú er ég kominn heim og undirbý kvöldmat með konunum. Það verður ánægjulegt fyrir okkur, mig og vikusálina. En eins og Rousseau upplifði vikusálirnar þá skiptast þær á og ekki á vísan að róa með næsta dag. Hann sagði: „[…] Önnur gerir vit mitt sturlað en hin gerir sturlun mína vitra en þó þannig að sturlunin verður vitinu yfirsterkari í báðum tilvikum.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.