Útför frá Selfosskirkju

Margt fer um hugann. Minningar og atvik. Þrjár konur tóku á móti okkur þegar við fluttum að Selfossi fyrir þrjátíu og átta árum. Hólmfríður Hanna Magnúsdóttir, Doris Nyberg og Anna Marie Kyvik. Þær voru hvítasunnukonur. Með hárið sett upp í hnút. Ákveðið var að reyna að efla sunnudagaskólann sem þær höfðu haldið úti um árabil. Á Austurvegi 40 b. Húsi hvítasunnumanna. Vorum þar í tvö ár.

Við Ásta fengum þar inni með barnahópinn okkar. Töldum við það sjálfsagða skyldu að ganga inn í starfið og hjálpa til. Og blésum til sóknar. Aðsóknin í sunnudagaskólann jókst nokkuð hratt. Börnin okkar dreifðu boðsmiðum í öll hús í grenndinni. Aðsóknin varð fljótlega 80 til 100 börn. Það var líf og fjör. Hólmfríður og Doris tóku þátt af afli. Stóðu með okkur og studdu af einlægni. Það gerði einnig Glúmur Gylfason sem gaf sig fram og tók að sér orgelið. Flest komu 150 börn. Það var á jólagleði, sem svo var kölluð.

Við fórum einnig af stað með samkomur fyrir fullorðna. Það fór hægt af stað. Þegar best gekk komu liðlega þrjátíu manns saman. Stundum komu Kotararnir og tóku þátt. Guðni Markússon og synir hans þrír, Ninni, Maggi og Grétar. Þetta voru góðir tímar. Mikið um hallelúja og dýrð sé Guði. Við lögðum okkur fram og nutum hvatningar Hólmfríðar og Dorisar. Hólmfríður var stólpi.

En lífið er ekki bara hallelúja. Þeir sem staðhæfa það hafa misst tök á raunveruleikanum. Þeir mála yfir staðreyndir með innihaldslitlum fullyrðingum. Það er að sjálfsögðu, samt sem áður, ánægjulegt að geta hrópað hallelúja á góðri stund og gleymt baráttunni í góðum hópi. En lífið er ekki sætsúpa í allan mat. Enda sætsúpa óholl.

Þetta vissi Hólmfríður og stóð í báða fætur á jörðinni í viðhorfum til lífsbaráttunnar. Þótt hún í einlægni kæmi fram fyrir Krist Jesúm með málefni sín, eins og við gerum öll á okkar einkastundum. Og biðjum hann um að anda á sársauka okkar og draga úr honum. Biðjum hann fyrir meðbræðrum okkar að hann einnig dragi úr þjáningu þeirra og hjálpi þeim að komast af.

Það er hægt að segja amen hljóðlega þegar Jesús hefur orðið við bæn. Og það gerðum við í gær þegar við sátum í Selfosskirkju og kvöddum Hólmfríði í hinsta sinn. Hún gerði líf okkar betra þann tíma sem við áttum samleið á Selfossi. Og við þökkum Guði fyrir það og segjum amen í hjartanu. Það felst svo margt í því andvarpi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.