Jakobsglíman

Fyrir þá sem áhuga hafa á efni Biblíunnar, það er Heilagrar ritningar, leyfi ég mér að vekja athygli á tveim frábærum greinum um Jakobsglímuna í öðru hefti Glímunnar, tímariti um guðfræði og samfélag. Sú fyrri er eftir dr. Kristinn Ólason, hin síðari eftir dr. Sigurjón Árna Eyjólfsson. Las ég þær báðar mér til mikillar ánægju. Grein Kristins beinist að merkingu og markmiði biblíutextans og bókmenntafræðilegrar rannsóknar á honum. Grein Sigurjóns fjallar aftur á móti um skýringar Marteins Lúthers á frásögunni um Jakobsglímuna.

Glíman hóf göngu sína á Netinu árið 2003. Slóð hennar er á vef Kistunnar www.kistan.is/efni.asp?f=13 . Útgefendur eru Grettisakademían og Háskólaútgáfan. Fyrsta hefti Glímunnar, með öllu efni sem sett hafði verið á Netið, var gefin út á bók á síðasta ári og annað hefti kom út á bók í sumar. Ritstjórn annars heftisins er skipuð guðfræðingunum Ágústi Einarssyni, Gunnbjörgu Óladóttur, Jóni Pálssyni, Kristni Ólasyni, Sigurjóni Árna Eyjólfssyni og Stefáni Karlssyni. Velheppnuð hönnun, umbrot og prófarkalestur er í höndum Brynjólf Ólasonar.

Það er verulegur fengur í greinum þeirra guðfræðinganna og bendi ég áhugasömum á að þeir geta nálgast þær á netinu, eins og fyrr segir, og eða keypt bókina. Báðar greinarnar opna innsýn inn í hugsun þekktustu fræðimanna og ritskýrenda sögunnar um túlkun á Biblíunni og víkka þar með sjóndeildarhring lesendanna verulega. En það er auðvitað eitt af því sem eykur gleðina af samneytinu við Guðsorð. Til dæmis má nefna hin kunnu nöfn eins og Jósefus Flavíus, Fílon frá Alexandríu, Klemens frá Alexandríu, Ambrósíus, Órígenes, Ágústínus og Lúther ásamt mörgum fleiri.

Það er mikil bót að því að hafa neðanmálsgreinar á sömu blaðsíðu og efnið sem verið er að lesa. Þegar slíkum tilvitnunum er safnað aftast í bækur fara þær meira og minna fyrir ofan garð og neðan. Að minnsta kosti hjá venjulegum lesendum. Eiga aðstandendur Glímunnar hrós skilið fyrir að velja þessa aðferð. Neðanmálið með greinum Kristins og Sigurjóns er fullt af dýrmætum fróðleik sem gerir efnið miklu áhugaverðara og útskýrir marga hluti sem ekki blasa við.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.