Is Ra El

Nokkrar hugleiðingar leikmanns í framhaldi af pistli um Jakobsglímuna og efni tveggja fræðigreina um hana í tímaritinu Glímunni. Reiknað er með að allir kannist við frásöguna af glímu Jakobs, en þar segir frá því þegar Jakob hlaut nýtt nafn á bökkum Jabbok. Ótal spurningar, sem Biblían ekki svarar, vakna. Spurningar um innvígða meistara og launhelgar sem geymdu leyndardóma himinsins og huldu þá fyrir almenningi.

Spurningarnar sem vakna eru og um glímur hinna miklu andlegu hetja sem ritningaranar segja frá. Hinna miklu meistara trúarinnar. Og svörin við spurningunum blasa hreint ekki við. Það þýðir samt sem ekki að ekki finnist fleiri svör en hefðbundin guðfræði hefur komið auga á. Hvort við erum fær um að nálgast þau er svo önnur saga og verða menn að gæta sín á því að þótt þeir ekki finni þau þá þýðir það alls ekki að þau séu ekki til.

Svo virðist að þegar kemur að æðri sannleika sé það alfarið á valdi andans hvort hann lætur mönnum svör í té. Við lesum um andlegar vígslur sem yfirburðamenn hlutu eftir átakamiklar glímur. Áhrifamesta dæmið er glíman sem Jesús Kristur háði í óbyggðinni. Þar hafði hann sigur líkt og Jakob hafði sigur og báðir hlutu þeir blessun að launum.

Nafnið Israel, sem Jakob hlaut, er margslungið nafn og gefur ýmsa möguleika á vangaveltum um uppruna. Einn möguleikinn er sá sem felst í nafni þessa pistils. Is Ra El. Orðin eru þrjú og hvert þeirra er nafn á Guði. Hvað skyldi standa á bak við samruna þeirra? Hvaða niðurstöðu skyldi sigurinn í glímunni hafa fært Jakob? Og hvaða niðurstöðu eða öllu heldur hlutverk fékk Jesús Kristur eftir glímuna í eyðimörkinni?

Báðar frásögurnar segja frá ferð yfir á. Rennandi vatn. Jakob fór yfir Jabbok og eftir skírnina í Jórdan fór Jesús út í eyðimörkina. Hefur ekki vatnið ákveðna merkingu hér? („Spekin streymir fram eins og vatn…“ Enok xlviii.) Báðir mættu þeir andstæðingi sem vildi hindra ferð þeirra, komu þeirra að lokasigri. Og báðir sigruðu þeir andstæðinga sína sem án efa voru þeir sjálfir.

Meistarinn Jesús frá Nasaret gaf vilja sinn, sál og hjarta til að græða þjáða menn, kraminn huga hinna smáðu sem enga útgönguleið sáu í tilverunni, og rót á þá rótlausu. Lofað sé hans blessaða nafn. Mætti glíma hans varða mönnum leið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.