Kvöldgestir

Eftir að hafa hlustað á viðtalsþáttinn Kvöldgesti, síðustu tvö föstudagskvöld, þar sem viðmælandi stjórnandans var Georg Viðar Björnsson, sótti að mér leiði og hryggð yfir heildarsvip þáttarins og þeim atriðum sem mest áhersla var lögð á af hálfu stjórnandans. Þættirnir urðu tveir, þar sem svo mörgu var af að taka í frásögn Georgs, eða samtals eitthundrað og tuttugu mínútur.

Stærsti hluti þáttanna fjallaði um erfiðleika og niðurlægingu Georgs. Var frásögu hans jafnan beint að því neikvæða sem hann mátti þola í uppvexti, afleiðingum þess og utangarðslíferni sem hann tamdi sér unglingur og ungur maður. Var farið grannt í saumana á ýmsum atriðum og þeim velt upp og þau undirstrikuð og hlegið við þegar grófast gekk.

Þau komu í huga minn orð ritningarinnar frá Esekíel þar sem segir: „Og orð Drottins kom til mín svo hljóðandi: … Þá gekk ég fram á þig og sá þig vera að brölta í blóði þínu og sagði við þig: „Þú sem liggur í blóði þínu, halt þú lífi.““ Og af hverju komu þessi orð Biblíunnar upp í huga minn? Það er vegna þess hve yfirburðir Drottins eru miklir og hugsun hans og kærleikur æðri og undursamlegri en hugsun venjulegra manna.

Guð kom inn í líf Georgs til að lyfta honum upp úr drafinu og sagði við hann: „Halt þú lífi.“ Og Georg umbreyttist, frelsaðist, frá áralöngu baslinu. Það er eitt af þessum miklu kraftaverkum sem Drottinn vinnur. Stórkostleg og óútskýranleg umbreyting á persónuleika einstaklinga sem vilja við því taka. En einhvern veginn þótti það ekki eins athyglisvert og bröltið í niðurlægingunni og fékk Georg aðeins tíu mínútur, af þessum hundrað og tuttugu, til að segja frá því sem í lífi hans hlýtur að vera hans mikilvægasta og dýrmætasta reynsla.

Ávextir af endurfæðingu Georgs voru verulegir. Knúinn af anda Guðs hóf hann starf á meðal glataðs fólks, útigangsmanna og annarra týndra sálna. Hann stofnaði hjálparstarf við frumstæð skilyrði. Starf sem síðar varð Samhjálp hvítasunnumanna. Hvort hann var nægilega vel undir það búinn að takast á við svo mikilvægt starf er auðvitað álitamál, og hvort þjóðin var tilbúin undir það að stofnuð yrði ný tegund af hjálparstarfi er einnig álitamál. Sama gilti um Fíladelfíusöfnuðinn í Reykjavík, eða stjórn hans. Hún var ekki tilbúin til að takast á við þetta brautryðjendastarf. Enda tóku sterkir mótvindar að blása.

Í þeim blæstri fékk Georg ekki þann stuðning og skilning sem þurfti. Og reikna má með að þess vegna hafi hann bognað og brotnað. En hann „heldur lífi“ og það ber orði Guðs vitni. Og það finnst mér einhvern veginn að hefði mátt vera þungamiðja Kvöldgesta þessi tvö kvöld með Georgi Viðari.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.