Magga, Gugga, Agga, og Bagga

Ákvað að prófa nýja uppskrift. Fiskrétt. Það er ávallt nokkur lífsreynsla að glíma við slíkt. Fékk þessa flugu í höfuðið í gær. Byrjaði með því að lesa uppskriftina tvisvar. Skrifaði síðan hjá mér öll efni sem nota átti og komst að því að nokkur atriði voru ekki til í húsinu. Það þýddi að ég varð að þræla mér niður í Hagkaup í Smáralind. Hún er samt ein sú leiðinlegasta verslun sem ég kem í. Maður er þvingaður til að ganga hálfan kílómeter þótt mann vanti ekki nema eitt atriði í matardeildinni.

Hvað um það. Ég arkaði inn eftir versluninni og tók að leita að surimi. Vissi ekkert hvar líklegast væri að finna það. Snéri mér loks að konu, dökkklæddri, merktri Hagkaup og sagði í spurnartón: „Surimi?“ „Ha?“ hváði konan. „Surimi?“ endurtók ég. „Surimi, Guð, nei, bíddu.“ Svo kallaði hún hástöfum: „Magga, Magga.“ Þegar þær hittust spurði sú fyrri hina hvort hún vissi hvar surimi væri. „Surimi, nei, Guð, nei. Hún gekk síðan hratt út ganginn og kallaði: „Gugga, Gugga, veistu hvar surimi er?“ „Surimi, nei, almáttugur, spurðu Öggu.“ „Agga, Agga, hann er að spyrja um surimi. veistu hvar það er?“ „Ha, surimi. Spurðu Böggu. Hún veit allt.“ ,, Bagga. Maðurinn er að spyrja um surini.“

Bagga gekk rakleitt að einu kæliborðinu, tók upp rauðleitan pakka og sagði: „Surimi? Ekkert mál. Af hverju sagðir’u ekki krabbakjöt?“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.