Geggjun

Viðtalið við Birgi Sigurðsson leikskáld í Lesbók Moggans um helgina er kraftmikið. Ekki var svo sem við öðru að búast úr því að maðurinn hefur verið á kafi í Nietzsche um árabil. Erlendis. Nánar tiltekið í Edinborg. Svo kom hann heim og um það segir hann: „Ég hef búið erlendis í tvö og hálft ár og er nýfluttur heim. Fyrst þegar ég kom heim leið mér eins og ég hafi verið sleginn utan undir. Samfélagið þjáist af græðgi, framasýki, frægðarfíkn og streitu. Þetta verkar á mann eins og geggjun.

Verst er að Íslendingar virðast vera hreyknir af þessari geggjun sinni og hamast því meira við lífsflóttann. Ef þetta samfélag væri einstaklingur væri talið óhjákvæmilegt að hann færi í meðferð.“ Birgir gagnrýnir efnishyggju, blinda framfaratrú, sjálfgefnar siðferðishugmyndir, sljóleika, sjálfbirgingsskap, lífslýgi og sjálfsblekkingu.

Það er orðið allangt síðan heyrst hefur jafn ákveðin gagnrýni á þjóðarsálina okkar hér uppi á Fróni. Og það blasir við að sálin sú mun ekki, jafnvel þótt hún heyri orð Birgis, gera neitt með þau. Til þess er hún of ánægð með sjálfa sig og svo til allir samdauna þessum geggjaða anda. Enda segir Birgir einnig: „Þetta er smitandi. Ég verð kannski orðinn svona sjálfur eftir mánuð.“

Orð Birgis eru sögð í lok Viku bókarinnar. Það er athyglisvert. Og hægt væri að spyrja hvort geggjunin geti verið bókum að kenna. Birgir talar einnig um að í leikhúsunum „beri talsvert á gervimennsku og sýndarmennsku sem birtist í þörf fyrir að allt sé „show“. Útlit og umbúðir.“ Þar hittir hann naglann á höfuðið. Það er eins og allt, ekki bara leikhús, skuli ganga út á sýndarmennsku og skrum. Og það vekur mann til umhugsunar á þessum tímum þegar aðgengi að menntun hefir aldrei verið meira.

Aldrei voru fleiri háskólar. Aldrei fleiri menntaskólar. Aldrei fleiri tækifæri til allskyns menntunar. Samt er það hismið sem haft er í hávegum. Tilbeðið og dýrkað. Hvernig má það vera? Hvað er gefið á garðana?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.