Vika bókarinnar. Fjórði hluti

Fór loks í gær í búð og keypti smásögur Hemingway´s í annað sinn. Þessar sem komu út fyrir jólin. Þá þurfti ég að fara þrjá daga í röð í bókabúð til að eignast hana. Það var tíminn sem það tók útgefendur að koma henni í verslun eftir að þeir sögðu hana komna í búðir. Bókin heitir Snjórinn í Kilimanjaro og fleiri sögur. Hún er þýdd af Sigurði A. Magnússyni. Listavel.

Ég tók hana svo með til Glasgow þegar við fórum þangað saman í nóvember, Ásta, Gunný og ég. Það var sérstaklega góð tilfinning að hafa hana í farteskinu og nærvera hennar minnti á svo margt ljúflegt sem Hemingway sagði betur en aðrir. En svo gleymdi ég henni á hótelinu. Það var svívirðilegt. En nú lét ég verða af því að kaupa hana aftur. Hún er í kilju og kostar sautján hundruð krónur. Þið ættuð að fá ykkur eintak.

Það brá svo skemmtilega við að ég fékk Árbók bókmenntanna í kaupbæti. Lærði að hana fá allir í kaupbæti sem kaupa fyrir meira en fimmtán hundruð krónur, í viku bókarinnar. Það var verulega ánægjulegt. Árbókin er flott útgáfa. Innbundin og falleg og full af orðskviðum, ljóðahlutum og tilvitnunum. Þar er lesning fyrir sérhvern dag ársins og nefndir til sögunnar tveir til fimm höfundar sem eiga þann afmælisdag. Njörður P. Njarðvík tók efni bókarinnar saman. Hún hæfir mjög vel á borðinu við horngluggann okkar Ástu.

Ein af smásögunum í fyrrnefndri bók Hemingway´s verkaði sérlega sterkt á mig þegar ég las hana fyrst. Það var fyrir um fimmtíu árum. Hún heitir á frummálinu The Short Happy Life of Francis Macomber. Sigurður kallar hana Skammlíf sæla Francis Macomber. Það er ekki auðvelt að íslenska rytmann sem gjarnan er í titlum bóka og sagna Hemingway´s. En hvað um það. Þetta örstutta hamingjulíf Francis Macomer var svo stutt að af öðru eins hefur varla heyrst.

Það gerðist þannig að þegar hann, skræfan og heigullinn, á veiðum í Afríku, hafði sigrað heigulsháttinn og skræfuna í sjálfum sér og skotið buffalinn sem kom froðufellandi í áttina til hans, upplifði hann þessa ósegjanlegu sælutilfinningu sem fylgir því að sigra. Ekki bara veiðidýrið, heldur og sjálfan sig. En frú Macomber, sem sofið hafði hjá leiðsögumanninum, skaut líka „og hafði hæft bónda sinn umþaðbil tvo þumlunga skáhalt ofanvið rætur höfuðkúpunnar.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.