Halló, halló, kaupum Símann

Við sátum við eldhúsborðið um hálf sjö leytið í morgun, hjónin, sötruðum kaffi og lásum blöðin. Eitt af aðalefnum þeirra þessa dagana er Halló, halló, Agnes hér, Orri og Jafet og Síminn. Umræðuefnið er að nú skuli allur almenningur taka sig saman og kaupa Símann. Halló, halló. Kaupum Símann. Ásta stansaði óvenjulega lengi við eina greinina. Sagði svo: „Eigum við að kaupa í Símanum?“

Sjálfur hafði ég lesið og heyrt að búið væri að semja flækju um kaupin. Löngu fyrirfram. Það gerðu stjórnmálamennirnir. Almenningur fengi ekki að kaupa fyrr en einhverjir útvaldir hefðu keypt, hagrætt og hækkað verðið til muna. Þá loksins fengi almenningur að kaupa, á miklu hærra verði, og þeir útvöldu sætu sælir með hagnaðinn og néru saman höndum eins og Fagin sálugi. Eða eilífi. Í því fælist fléttan.

Það er annars athyglisvert hvernig þessi mál ganga fyrir sig. Þá á ég við þegar ríkið er að selja almenningi eignir sem almenningur á. Mörg slík mál hafa verið afgreidd á síðustu fimmtíu árum og okkur hérna niðri á flatlendinu ekki fundist taka því að hrista hausinn yfir braskinu. Hvað þá að reyna að hafa áhrif. Það er yfirleitt ekki hlustað á okkur nema vikurnar fyrir kosningar og loforðin sem gefin eru þá flest fyrirfram svikin.

Svo lenda menn í því, – þegar þeir reyna að telja sér trú um að þeir séu, vegna aldurs, frjálsir og óháðir, – þegar þeir reyna að skilgreina stöðu sína í þjóðfélaginu að líkastir eru þeir krækiberi í Helv…, eins og sagt er. Og maður sér eins og í anda, hin fornu fjölleikahús rómverja, hvar í þéttsetnum áhorfendastúkunum sitja blokkirnar sem eiga landið og þjóðina og vinir þeirra. En peðin sýsla sér í sandinum á leikvellinum.

Ég horfði á Ástu nokkra stund. Hún er alltaf svo jákvæð og svaraði síðan: „Hvar eigum við að fá peninga til þess?“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.