Farísear allra tíma

Þeir voru harðir á því, farísearnir á tímum Krists, að gefa hvergi eftir um bókstaf Móselaga. Þeir eltu Jesúm á röndum öll starfsár hans og gerðu hverja atlöguna á fætur annarri til að gera hann sekan við lögmálið. Má og lesa í ritningunum að hjartans mál þeirra var ekki fyrst og fremst lögmálið, heldur það að koma höggi á manninn. Dæmi: „Þá gengu farísearnir burt og tóku saman ráð sín, hvernig þeir gætu flækt hann í orðum.“ (Mt. 22)

Guðspjöllin segja „Jesús þekkti illsku þeirra…“ Hann skildi hvað í hjörtum þeirra bjó og þegar þeir spurðu hann út í framkomu lærisveina hans á hvíldardegi „…hví gjöra þeir það, sem ekki er leyfilegt á hvíldardegi?“ svaraði hann: „Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna og eigi maðurinn vegna hvíldardagsins.“

Það sem mestri undrun veldur þegar hlýtt er á farísea nútímans er hve afstaða þeirra er ótrúlega lík afstöðu bræðra þeirra á dögum Jesú Krists. Þeim fyrri var þó nokkur vorkunn þar sem þeir þekktu ekki „hið sanna ljós sem var að koma í heiminn.“ Þeir seinni hafa búið við guðspjöllin og orð Krists allar götur í tvö þúsund ár. Samt ganga þeir hiklaust framhjá honum þegar þeir grípa til Móse og Páls í vandlætingu sinni.

Það læðist að manni grunur um að trú þeirra sé ekki endilega svo kristin. Hún sé nær gyðingdómi. Þeir sæki trúarafl sitt í lög og reglur og skilji ekki að lög eru huglæg verkfæri. „Látum Guð tala,“ sögðu þeir á dögum Krists, „Látum Guð sjálfan tala,“ segja þeir nú á dögum. Þeir segja ekki „Látum Jesúm Krist tala.“ Af hverju skyldi það vera?
Táknið