Allt í einu kom hún fram í sviðsljósið. Gáfuð, menntuð og glæsilegur persónuleiki. Kristín Ingólfsdóttir. Aldrei hafði ég heyrt af henni fyrr en hún bauð sig fram til rektors við Háskóla Íslands. Þar keppti hún við hóp karla. Í seinni umferð, þegar tvö stóðu eftir, sá ég kastljósþátt með henni og keppinaut hennar. Yfirburðir hennar voru algerir. Hógværð og hyggni á móti yfirborðslegum framboðsfundatilburðum stjórnmálamanns. Við hjónin sögðum í vinahópi að hana myndum við kjósa hefðum við rétt til þess.
En auðvitað höfðum við engan rétt til þess, sauðsvart alþýðufólkið. Háskólinn hefur samt alltaf verið okkur kær. Mín snerting við hann hófst þegar í bernsku. Þá fórum við krakkarnir af Holtinu, þ.e. Grímsstaðaholtinu, með tunnustafi og renndum okkur niður brekkuna frá Suðurgötunni niður að Háskólanum. Það var ægilega spennandi. Síðar hagaði því þannig til að við bræðurnir gengum framhjá Háskólanum tvisvar til fjórum sinnum á dag. Á leið til vinnu, á leið úr vinnu, á leið út á lífið og á leið heim aftur.
Svo höfum við Ásta mín átt miða í Happdrætti Háskólans í tugir ára og vegna áhuga okkar á Háskólanum verið kát og ánægð með það þótt aldrei hafi fengist vinningur upp í kostnað. Loks hafa þrjú af börnum okkar verið í námi þar og notið umhyggju og stuðnings kennara sinna. En það er af öðrum hvötum sem ég skrifa þennan pistil. Þær snúa að fjölmiðlunum.
Svo virðist sem þeir hafi lítinn sem engan áhuga á fólki eins og þessum glæsilega nýja háskólarektor, fyrr en það stendur upp og býður sig fram. En að sjálfsögðu er til fullt af fólki, menntuðu fólki sem vinnur í hljóði að vísindum og þekkingu til lausnar á hinum ýmsu vandamálum þjóða. Og það væri ekki úr vegi að fjölmiðlarnir, með sitt háskólamenntaða starfsfólk, sýndu slíkum áhuga og kynntu þá fyrir þjóðinni.
Stöðugar fregnir af milljarðamæringum, kaupum og útrás risafyrirtækja og endalaus glíma innanlands um yfirráð yfir fyrirtækjum virðist fá mest rými í miðlunum. Svo og þetta endalausa skrum stjórnmálamannanna. Væri ekki rétt að jafna þetta svolítið og flytja meiri fregnir og upplýsingar af gáfum, menntun og þekkingu og kynna fólkið sem helgar líf sitt slíkum greinum í hljóði. Stundum dettur manni í hug að fjölmiðlafólkið hafi ekki vit á því.