Hvar á elskan upptök sín?

Þeir sem áttu stundir við sjávarmál og upplifðu krafta sjávarfalla, flóðs og fjöru, eiga vafalítið ljúfar minningar um stundina á milli falla, þessa stuttu sem hefst eftir að útfalli lýkur og aðfall hefst. Hún er kölluð liggjandi og eða ögurstund. Í góðu veðri er stundin sú dularfull og býr yfir leyndardómi, sérkennilega hljóðlát og undarlega kyrr, þar til kraftar veraldar hefja að toga hafið að landi að nýju.

Í trúarlegu samhengi, kristinnar trúar vel að merkja, eru þessi dagar, fjörutíu plús tíu, frá páskum til hvítasunnu, merkilegir og dulúðugir á svipaðan hátt og lögmál flóðs og fjöru. Þeir fjörutíu segja frá þeim dögum Krists þegar hann er á útleið eins og útfall sjávar. Þeir tíu sýna þróun í hugsun og skilningi fylgjenda Krists, úrvinnslu orða hans og ákvörðun þeirra um að TREYSTA orðum hans. Dagarnir eru eins og aðfall sjávar og stórstraumsháflæði varð á hvítasunnudag.

Kyrrðin og hlutleysið sem verður á liggjandanum er gott tákn um það hvernig sál og hugur manna þarf að tilreiða sig til þess að geta meðtekið boð meistarans: „Meðtakið heilagan anda,“ sem við getum líkt við aðfall eða fyllingu. Þessu missa margir af og eru ýmsar ástæður fyrir því. Sumar þeirra má lesa um í ritningunum. Má til dæmis vekja athygli á „boðorðinu hinu fremsta“: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.“

Hjartað er talið fyrst. Síðan kemur sál og hugur. Hjartað. Þetta innsta hólf hvers einstaklings, fyrir innan sál og innan hug og hugsun. Þetta hólf uppsprettu elsku og sorgar. Og menn geta spurt sig, einmitt á þessum dögum ögurstundar í trúarlegu samhengi, hvar á elskan upptök sín? Ég leyfi mér að enda þennan pistil með orðum Johannesar de silentio: „Hin óendanlega auðsveipni er síðasti áfanginn á undan trúnni, þannig að hver sá sem ekki hefur framkvæmt þá hreyfingu hefur ekki trúna.“ (Uggur og ótti. Bls. 106)