París er stöðug veisla, fyrri hluti

Ágætur vinur okkar Ástu, Helgi Jósefsson, hafði lesið grein í blaði sem ég skrifaði eitt sinn og heitir Þrír dagar í París eða Pétur og haninn. Við Ásta höfðum verið í París í nokkra daga og upplifað þessa stórkostlegu borg. Þegar Helgi einverju sinni var á ferð í París kom hann við á Louvre safninu og leitaði uppi myndina af Pétri og hananum, en hluti greinarinnar fjallaði einmitt um myndina. Helgi tók mynd af málverkinu og gaf Ástu þegar heim kom.

Umræddur greinarhluti hljóðar svo: „Síðasta daginn skoðuðum við Sigurbogann og vorum lengi að liðast niður Champs-Elysées, skoða staði og skoða fólk og drekka kaffi og slæpast og fara út á miðja götuna og standa þar á hvíta strikinu með myndavél þegar umferðarófreskjan trylltist á grænu ljósi og loftstraumurinn var nærri búinn að feykja manni um koll. Skoða sælgætisbúð og hljómplötuverslun og kaupa plötur með Mirellu og taka þátt í kæruleysi og afslöppun allra hinna sem voru þarna í sömu erindum.

Loks fórum við yfir Pl. Concorde og komum að Le Louvre garðinum og fundum suðurdyr og komumst inn á safnið og tókum að skoða og skoða og skoða. Fyrir stutt komna er heilmikið álag að ganga um söfn þar sem mikið er af þekktum listaverkum. Listaverkum sem þú hefur heyrt um frá æsku, séð myndir af í blöðum og heyrt af þeim fréttir, samanber Monu Lisu eftir Vinci sem geymd er í sérútbúnum glerskáp síðan einn safngesta rak hana á hol með regnhlíf.

Og hafir þú í gegnum tíðina keypt þér stöku málverkabók, eða þegið að gjöf frá kærum vini, þá hittir þú á Le Louvre myndir sem þú hefur skoðað aftur og aftur í einrúmi á löngum andvökunóttum, og þekkir þær og elskar sumar þeirra og þess vegna verða fundir ykkar svo áhrifamiklir.

Þarna er Dona Rita eftir Goya, Kristur krossfestur eftir Greco, Frelsið eftir Delacroix, Batseba eftir Rembrandt og Plankaflekinn úr freigátunni Medusu eftir Géricault, risastór mynd (4,91 x 7,16 m), sem segir frá svo átakanlegu atviki, þegar 149 farþegar af freigátunni komust á planka þegar skipið fórst og rak fyrir endilangri strönd Afríku í júlí 1816 og aðeins tíu komust af.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.