Gellur í tíma og rúmi

Það var fyrir svo sem tíu árum síðan. Við Ásta vorum að skoða gólfefni. Komum í Ármúlann. Þar var verslun með slík efni. Þetta var skömmu eftir hádegi. Afgreiðslumaðurinn var í þessu feikna stuði. Hann bókstaflega dansaði um búðina og sagði okkur með sveiflu frá því hvað gellur og hvítvín væri frábær matur. Ég er ekki frá því að hann hafi sýnt tangó tilburði þegar hann skeiðaði um gólfið. „Gellur og hvítvín,” endurtók hann aftur og aftur. „Gellur og hvítvín.”

Eiginlega komumst við ekkert að með gólfefnatal og hurfum frá litlu nær um þau mál. Höfum oft hlegið að atvikinu. Gellur voru annars ódýr matur fyrir fimmtíu til sextíu árum. Stundum komumst við strákarnir í hausa og fengum að gella í matinn. Maður vandist gellum þótt ekki væru þær lagðar í kryddlög og bornar fram með hvítvíni. En einhvern veginn urðu menn aldrei alveg saddir af þeim.

Það var svo eitt haustið að við fórum fjögur saman á veitingahús Úlfars og ljóna sem var þá á Grensásvegi og sérhæfði sig í fiskiréttum. Við Ásta pöntuðum blandaða sjávarrétti. Þetta var elskulegt síðdegi. Maður fór og fékk sér súpu á disk, skar sér sneiðar af grófu brauði og tók smjörklípu með. Síðan gengum við að borðinu okkar og nutum tilverunnar. Samræður gengu vel.

Að lokinni súpu kom stúlka með aðalréttina. Hún lagði þá nettlega fyrir hvern og einn og sagði „gjörið svo vel.” Síðan bætti hún vatni í glösin og sagði: „Njótið vel.” Það gerðum við svo sannarlega. Maturinn var afskaplega góður og silkimjúkur og gott að láta hann líða um bragðkirtlana. Þarna var biti af hvítum fiski, líklega þorski, þá smálúðubitar, hörpuskel og lítils háttar af rækjum og gellur.

Allt var þetta hæfilega eldað og borið fram í listagóðri rjómasósu sem Úlfar er sérfræðingur í. Eins og menn vita. Matarnautnin var þvílík að fátt var talað á meðan snætt var. Svo auðvitað gat ég ekki orða bundist þegar stúlkan kom að borðinu til að bæta vatni í glösin, og sagði við hana: „Fínar gellur, fröken. Fínar gellur.” Stúlkan leit á mig, síðan niður á brjóstin á sér og sagði: „Ha, á mér?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.