Fljótið og lækir dalanna

Stundum eru svo margar bækur komnar á skrifborðið mitt, heima, að ég neyðist til að endurskoða staflann til að hafa sæmilegt rými fyrir olnbogana. Núna eru þarna tvær bækur eftir William James, The Varieties of Religious Experience og The Will To Believe. Þá er þarna The Sayings of The Jewish Fathers, Íslenska sálfræðibókin, Heilög ritning og Bókin um veginn á íslensku og ensku. Þá eru tvær bækur um indverska matargerð.

Bókina um veginn er ég að lesa í hundraðasta sinn. Hef hana opna hjá mér þessar vikur. Viska hennar er mögnuð. Fyrir ótal árum síðan gaf ég hana ungmennum í verðlaun fyrir frábæra mætingu í sunnudagaskóla sem ég sá um. Síðar, á árunum þegar erfiðast var í Samhjálp, las ég Bókina um veginn af ástríðu. Það var þegar einhverjum einstaklingum þótti velgengni Samhjálpar óþarflega mikil og fannst sér misboðið að fá ekki að standa í ljóma stofnunarinnar. Eins og það sé einhver ljómi af starfi sem reynir að lyfta örmagna fólki upp um skref eða tvö.

Hugsun Lao Tze sefaði angrið sem ég hafði af togstreitunni sem myndaðist. Á einum stað segir, kafli 38:
„1. Hin æðri dyggð ljómar ekki, og það er ágæti hennar. Hin óæðri dyggð hreykir sér og er þess vegna lítils verð.
2. Hin æðri dyggð starfar ósjálfrátt og þarf ekki að halda sér á lofti. Hin óæðri dygg sér sinn hag og vill láta bera á sér.
3. Hin æðri ástúð starfar og er ósérplægin. Réttlætið starfar, en sér einnig sinn hag, þótt það sé göfugt.
4. Siðir og venjur færast mikið í fang, en eru sífellt á stjái og ryðja sér til rúms með ofbeldi, ef þeim er ekki viðtaka veitt.
5. Þess vegna er ekki unnt að draga dul á, að þegar Alvaldið hverfur, kemur dyggðin í ljós; þegar dyggðin er horfin, er ástúðin eftir; þegar ástúðin er missist, kemur réttlætið til sögunnar; þegar réttlætið er farið veg allrar veraldar, setjast siðir og venjur að völdum.
6. Siðir og venjur eru aðeins skugginn af sannri sæmd og eru undanfari óeirða. Grunnfærnin eltir vafurlogann og er upphaf heimsku.
7. Sannarlegt mikilmenni reisir á traustum grundvelli og fer ekki eftir yfirborðsgljáa. Hann hirðir ávöxtinn, en ekki blómið. Hann fleygir hisminu, en hirðir kjarnann.”

Tao-te-king, eða „Bókin um dyggðina og veginn”, eins og hún heitir fullu nafni, er eftir kínverska spekinginn Lao Tze. (604 fyrir Krist). Íslensk þýðing er eftir Jakob J. Smára og Yngva Jóhannesson.

Þýðendurnir hafa valið orðið Alvald, til að lýsa orðinu Tao, en Tao þýðir nánast Vegur. Þungamiðjan í ritinu er hið órannsakanlega upphaf og viðhald alls, leyndardómur tilverunnar. Höfundinum finnst það vera blíður og velviljaður máttur, sem menn þurfi að reyna að komast í samræmi við. Í eftirmála bókarinnar er haft eftir öðrum vitringi, Kwang-tse, eftirfarandi: „Orð eiga sér engan stað um hið óendanlega og óþrotlega. Nafn Alvaldsins er líking, notuð til þess að lýsa því…. Ef orð nægðu til þess, gæti það orðið okkur útrætt mál á einum degi, …”

Eins og áður er sagt, þýðir Tao upphaflega vegur, og er það sumstaðar nefnt vegur himinsins, til aðgreiningar frá vegum mannanna, sem oft eru allt aðrir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.