Krappur

Oft heyrist af einstaklingum sem tefldu á tæpasta vað og misstu fótanna. Það er ekki gott að missa fótanna. Þá skolar mönnum undan boðaföllum, iðum og straumköstum og þeir ráða engu um hvar eða hvort þeir ná einhverju taki til að stöðva sig. Þeir sem ekki ná taki tapa lífinu. Aðrir bjargast, mismunandi lemstraðir. Á það við bæði um sál og líkama. Á flestum sviðum mannlífsins heyrist af fólki sem missti fótanna.

Það er ekki margt hægt að gera fyrir þá sem týndu lífinu. En það er hægt að umvefja aðstandendur þeirra með græðandi orðum og nærveru. Eitt brýnasta viðfangsefnið er svo að snúa sér að þeim sem náðu einhverju taki og tókst að stöðva sig áður en til heljar kom og reyna með þeim að skilgreina mistökin sem ollu skaðanum sem varð.

Lífsháski er fjölbreytilegur og steðjar að mörgum. Margir sjá framan í eyðandi öfl á lífsgöngu sinni. Öfl sem viljandi eða óviljandi nærast á lífsþreki fólks og draga úr því allan mátt. Til viðnáms er gott að vita um það lögmál lífsins að allir hlutir eiga sér andstæður. Svart og hvítt, dagur og nótt, ljós og myrkur, gott og illt, elska og hatur. Og það er mikil vörn í því að leitast við að beina huga sínum til hinna jákvæðu afla fremur en þeirra neikvæðu.

Það er gert á margvíslegan hátt. En það kostar að aga hugann. Ritningin segir á einum stað frá systrunum Mörtu og Maríu. Allir kannast við þær. Marta kvartaði við Jesúm yfir því að María sæti og hlustaði á orð hans og kenningu á meðan hún, Marta, ynni öll húsverkin. Þá svaraði Kristur Mörtu og sagði: „Marta, Marta, María valdi góða hlutskiptið, það verður ekki tekið frá henni.” (Lúk. 10:41)

Til er frásaga um ungan munk sem vildi fá svar við því hjá ábótanum sínum hvert væri mottóið í skipuninni: „Biðjið og starfið.” Nokkrum dögum seinna bauð ábótinn unga munkinum út á bát með sér. Ábótinn réri fyrst – en aðeins með einni ár. Og auðvitað fór báturinn í eintóma hringi. Þá sagði ungi munkurinn: „Ábóti góður, ef þú notar ekki báðar árarnar þá komumst við hvergi.” Ábótinn svaraði: „Alveg rétt hjá þér, sonur kær. Hægri árin er bænin, sú vinstri er vinnan. Ef þú ekki notar þær saman og í jöfnum togum þá ferðu einfaldlega í eintóma hringi.”

Af þessari litlu frásögu má læra að sérhver trúaður maður þarf að hafa rétt hlutföll á milli vinnu og bænar. Óþekktur höfundur hefur sagt: „Sérhver trúaður maður þarfnast að minnsta kosti tíu mínútna til bænar á dag, nema þegar sérstaklega mikið er að gera, þá þarfnast hann að minnsta kosti tuttugu mínútna.”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.