Það var árið 1951. Í maí. Stúlka sem vann í bakaríi Pöntunarfélagsins við Smyrilsveg, lagði til við mig sumarráðningu á sveitabæ í Borgarfirði. Við höfðum komið oft í bakaríið, gæjarnir, yfir veturinn. Það var lítið um atvinnu fyrir stráka á þessum árum og eitt og annað sem við stunduðum til að eyða tímanum. Vorum ekki í skóla. Því miður.
Við göntuðumst við þessa stúlku. Hún tók okkur vel og við ræddum málin við hana og hún við okkur þegar lítið var að gera í bakaríinu. Hún var þrýstilega vaxin og glaðlynd. Gaf okkur gjarnan endana af vínarbrauðslengjunum. Svo um vorið lagði hún þetta til við mig. Hún skyldi tala við bóndann og hann mundi hitta mig. Ég sló til eftir nokkurra daga umhugsun.
Bóndanum tókst ekki að hitta mig þegar hann kom í bæinn. Vegna anna. Réði mig samt út á orð stúlkunnar. Hún hafði verið þar sumarið áður. Svo kom að því að ég færi í sveitina. Var nokkuð vanur sveitastörfum. Átti að baki þrjú sumur í sveit. Við sæmilegan orðstýr. Sem ég var kominn á leiðarenda undir hádegi, var ég strax sendur út á tún til að moka úr. Einn. Aðrir sátu inni í bæ og hlýddu á árangurssögu bóndans.
Og maí var leiðinlegur. Það voru aðeins fjórir í heimili auk mín. En það var von á fleiri unglingum og sumarkrökkum. Næsti krakki sem kom var stelpa úr Reykjavík. Hún var frænka húsfreyjunnar. Níu ára gömul. Hún var mjög fríð, fremur dökk á hörund, svarthærð. Grönn og kvik í hreyfingum. Þegar hún kom í hlaðið stansaði hún og horfði nokkra stund á þennan nýja sumarstrák. Augu okkar mættust.
Það varð einhver dularfull tenging á milli okkar. Orðalaus vináttutenging. Dýrmæt og ólýsanleg. Maímánuður hefur æ síðan haft sérlega tilfinningalega þýðingu í huga mínum. Og hjarta. Ég segi Guði það oft og þakka honum fyrir að láta okkur hittast. Stelpan hét og heitir Ásta. Þetta var í maí 1951. Ég var fjórtán ára. Hún níu. Við drekkum morgunkaffið okkar saman við horngluggann á hverjum degi. Og rifjum gjarnan upp þessa tíma.