Það rifjast gjarnan upp löngu gleymdar minningar frá æskudögum þegar menn sem voru áberandi í æsku manns falla frá. Upp í hugann koma ýmis atvik frá fyrri dögum. Minnist, við fráfall Hauks Clausen, þeirra daga þegar þeir bræðurnir hann og Örn æfðu frjálsar íþróttir í mýrinni skammt frá æskuheimili mínu á svæði sem kallað var Vatnsmýrin á þeim dögum.
Nú er mýri þessi orðin hið virðulegasta borgarsvæði. Þar má finna nýja byggingu Háskólans sem enn er í smíðum og þar er Íslensk erfðagreining með sitt aðsetur. Á árum áður komu menn á fót Tívolíi austan við Vatnsmýrarveginn og Vetrargarðinum sem var alræmdur skemmtistaður. Til eru dæmi um að menn hafi týnt lífinu í skurðum mýrinnar eftir ball.
En skikinn sem íþróttamennirnir æfðu á var sunnan við Öskjuhlíðarveg. En vegurinn sá lá austur og niður frá Suðurgötu, sunnan við Nýja Garð og niður á Vatnsmýrarveg. En þar klippti flugvöllurinn hann í sundur. Einu sinni hrapaði herflugvél rétt við veginn á móti Nýja Garði. Hún var í flugtaki og það hafði kviknað í henni. Við pollarnir horfðum á flugmann fara út á væng vélarinnar og stökkva þegar hún hrapaði, alelda.
Íþróttamennirnir sem æfðu þarna og ég man eftir voru bræðurnir Örn og Haukur, Finnbjörn Þorvaldsson og Torfi Bryngeirsson. Einhverjir fleiri voru, kannski Gunnar Huseby, enn hann var nú ekki hlauparalega vaxinn, enda kúlukastari. En hinir hlupu og alveg svakalega hratt. Það var gaman að fylgjast með mönnunum. Eldhressir og fjaðurmagnaðir. Svo reyndum við pollarnir að gera eins.
Setningin sem kom upp í hugann frá þessum dögum var um æfingatækni og kom úr munni Arnar. „Best væri að æfa í þungum stígvélum alveg fram að keppni, maður yrði svo léttur á sér á eftir.” Við pollarnir mættum í stígvélum daginn eftir.