Vorilmur á páskadag

Konurnar komu að gröfinni. Hún var tóm. Þetta var á þriðja degi. Sá fyrsti var föstudagur, aðfangadagur hvíldardags. Annar dagur var laugardagur. Hann var hvíldardagur. Þá hélt fólk kyrru fyrir. Þriðji dagur var sunnudagur. Fyrsti dagur nýrrar viku. Konurnar komu að gröfinni eldsnemma. Gröfin var tóm.

Ísraelsþjóðin hélt páska. Hún minntist brottferðar forfeðranna frá valdsþjóðinni sem þrælkaði hana vægðarlaust og gerði henni lífið leitt. Eftir andvörp og kvein til Guðs undan ánauðinni leit hann til þjóðarinnar. Hann stofnaði sáttmála. Gerði samning við fólkið. Meðal annars skyldi slátra lambi og blóð lambsins vera tákn þeirra sem trúa. Ekki trúðu allir þá fremur en nú. Og í trú á Guð hélt þjóðin af stað frá kúgurunum. Hún hefur síðan haldið páska árlega til að minnast frelsunarinnar.

Jóhannes Zebedeusson skrifaði ódauðlega bók. Það sem hann skrifaði hefur staðist tímans tönn. Bók hans býr yfir meiri skilningi og þekkingu en bækur margra annarra. Kannski má lýsa henni sem einskonar þrívíðri frásögu. Í fyrsta lagi er yfirborðið. Það er það sem allir sjá þegar þeir lesa. Í öðru lagi er það sem þeir sjá sem lesa með trúuðum augum. Loks er þar þriðja lagið. Þangað sjá aðeins þeir sem Guð útvelur.

Blóðdropar Krists
Blóðdropar Krists

Bók Jóhannesar Zebedeussonar tengir saman hina fornu atburði og þá nýju. Hann skráir orð Jóhannesar skírara sem sagði um Krist: „Sjá, Guðs lamb…“ Þar með er komin tenging við frásöguna fornu. En nú voru nýir tímar í vændum. Sáttmáli fornaldar byggði á lögmálinu. Nýi sáttmálinn byggir á náð og sannleika. Náð?

Blóðdropar Krists

Jóhannes skýrir vel frá atburðum páskanna. Allt frá pálmasunnudegi, handtökunni og krossfestingunni til upprisunnar. Fólk les þennan texta með mismunandi hugarfari. Ýmsir gefa ekkert fyrir textana og trúna. Þeir lítilsvirða fólk sem krýpur og tilbiður. Það gerðu hermennirnir á dögum Krists líka. Þeir höfðu að spotti og hræktu og spörkuðu. Lýsandi fyrir manngerð þeirra.

Það er páskadagur. Ég finn hugsvölun í textum dagsins. Það er vorilmur í þeim. Andvari. Uppstreymi sem hefur hugann upp fyrir erfiðleika þessara tíma. Upp, eins og örninn konungur fuglanna hefur sig víðsýnn yfir storma og ský. Þar er kyrrt. Örninn er tákn Jóhannesar guðspjallamanns.

Gleðilega páska.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.