Svo ók hún af stað og veifaði

Við vorum hálfnuð með morgunverðinn. Sátum við borðstofuborðið og hún spurði hvernig ég héldi að horfur okkar væru. Á þessum tímum. Það varð nokkur þögn. Hvað getur maður sagt þegar stórt er spurt? Ekki get ég svarað eiginkonu minni, til fimmtíu ára, á sömu nótum og ríkisstjórnir okkar svara þjóðinni. Enda tæpast nógu lyginn til þess.

Við fórum yfir þetta í rólegheitum. Lánið sem við tókum fyrir tæpum sex árum, bjartsýn á glansandi veltu þjóðarbúsins og orð ráðherranna um traust efnahagslíf. Það þýðir samt ekkert að horfa á þá. Við höfum hálfrar aldar slæma reynslu af orðum þeirra.

Svo varð ég of gamall fyrir vinnumarkaðinn. Er jafnframt svo gamall að ekki var skylda að greiða í lífeyrissjóði fyrstu árin mín í vinnu. Og vinnuveitendur sögðu, án undantekninga, vertu ekkert að ganga í lífeyrissjóð. Maður skildi að vinnan var í húfi.

„Við ættum kannski að minnka við okkur,“ spurði frúin, „minnka greiðslubyrðina?“ Það var auðvitað skynsamlega spurt. Ég reyndi að vera gáfaður á svipinn: „Það eru ekki góðir tímar til að selja núna. Ekki heldur til að kaupa. Margir hafa keypt en gátu ekki selt það gamla. Það er ein viðbótartegundin af helvíti,“ svaraði ég þessari konu sem ég ber óendalega virðingu fyrir.

„Eigum við þá ekkert að aðhafast?“ spurði hún enn. Ég svaraði. Talaði hægt: „Ætli það sé ekki hyggilegt að hinkra fram eftir árinu og sjá hvort Josefsson reynist sannspár. Ég óttast samt stjórnmálamennina. Þeir eru ekki kunnir að því að fara að góðra manna ráðum. Sjáðu hvernig þeir láta í þinginu þessa daga. Þeir eyða mestum kröftum í hvalveiðar og bankastjóra. Þetta er eins og fuglabjarg“

Nú var komið að brauðinu. Þetta er svona orkubrauð með hveiti og klíði og sveskjum og eplum og sólblómafræi og sesamfræi og hörfræi og maltextrakti. Og harðri skorpu. Allt í einu komst ég upp á lag við að karamellusera skorpuna þegar ég baka og brauðið er einfaldlega sælgæti. Við borðuðum það þögul.

Litlu síðar fylgdi ég henni niður í bílageymslu. Hún var að fara til vinnu. Við bílinn hennar kom hún upp að mér, horfði í augu mín og sagði svo fallega: „Við höfum þó hvort annað, hvernig sem allt fer.“ Svo fór hún inn í bílinn, risasmáan Yaris, ók af stað og veifaði.

Eitt andsvar við „Svo ók hún af stað og veifaði“

  1. Já Óli það er erfitt að gera áætlanir hér á landi, því það er engu að treysta og verið lengi þannig því miður. Kær kveðja til ykkar Ástu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.