Gjörningar í Samhjálp II

Ekki veit ég hvaða hugmyndir fólk hefur um bænir. Mínar hugmyndir voru og eru einfaldar og reynslan af þeim góð.

Samkvæmt ritningunni kom Kristur til manna til þess að „leita og sækja hið halta og hrjáða“ og bæta hag þess. Þegar utangarðsmaðurinn H. maður um fimmtugt, kom í Hlaðgerðarkot. Hann var í rifnum, reimalausum, strigaskóm. Sokkalaus. Hann var í þunnum íþróttabuxum sem voru rifnar á hliðinni frá mjöðm og niður að hné. Nærfatalaus. Að ofan klæddist hann þunnri hvítri skyrtu einni fata. Tölur vantaði. Þetta var fyrri hluta vetrar og kalt úti.

Í framhaldi af komu H. í Hlaðgerðarkot stofnuðum við Ásta sjóðinn Samverjann. Tekin voru samskot í sjóðinn í samkomum. Naut Samverjinn strax mikillar blessunar. Við lögðum tilveru Samverjans í hendur Krists og byggðum á orðum hans. „En þegar þú biðst fyrir, skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn, sem er í leynum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér. […] Faðir yðar veit, hvers þér þurfið, áður en þér biðjið hann.“

Í hönd fór tími langra bænastunda. Vikum og mánuðum saman. Tekinn var frá tími á hverju kvöldi sem skipt var reglulega á milli bænar og lesturs ritninganna. Það var ekki auðvelt til að byrja með. Efst á bænalistanum voru skjólstæðingar Samhjálpar. Þá var beðið fyrir öruggum rekstrargrundvelli og möguleikum til að eignast aðstöðu í borginni til að halda utan um og styðja þá einstaklinga sem lögðu sig fram um að breyta lífi sínu. „Drottinn minn og Guð minn. Lát það nú eftir. En megi þinn vilji þó vera í fyrirrúmi.“

Árið 1978 hófst útgáfustarfsemi Samhjálpar. Gefin var út hljómplatan Kristur konungur minn, með söng Fíladelfíukórsins í Reykjavík. Á sama tíma vakti Guð áhuga trúaðra vina til að fara um landið og selja plötuna. Hún seldist í yfir tíu þúsund einstökum. Tekjurnar af henni voru að hluta notaðar til að gefa út bókina Krossinn og hnífsblaðið eftir David Wilkerson. Og nú tóku hjólin að snúast fyrir alvöru.

Meiri bænaáhersla var lögð á að fá húsnæði í Reykjavík og sem næst miðborginni. Til bráðabirgða höfðum við leigt Hverfsisgötu 44. Var áherslan lögð á þarfir utangarðsfólksins í huga. Fyrst og fremst. Einn daginn voru hluti af Hverfisgötu 42 og Sindrasmiðjan í bakhúsinu auglýst til sölu.

Framhald.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.