Þegar efnið reynist rýrt

Þegar betri helmingurinn fer af bæ lendir sá verri í því að glíma við sjálfin sem í honum búa. Hjálparlaust. Það er ekkert sérlega einfalt. Í gegnum árin hafa helmingarnir, betri og verri, þróað með sér lífsform í sambúð ( hjónabandi, staðfestri samvist o.svo frv.). Og það kemur áþreifanlegt tóm í tilveruna. Tóm sem maður talar inn í. Eða við.

Svo byrjar maður að reyna að fylla upp í tómið. Þess vegna las ég dagblöðin þrisvar sinnum í gær. Ekki af því að þau væru eitthvað merkilegri en aðra daga, heldur af því að ég var verulega ómerkilegri. Það voru fyrstu viðbrögð. Önnur viðbrögð voru að fara inn á Blogggáttina og leita að áhugaverðum bloggurum og lesa pistla þeirra. Þar er mikið um þvaður. Hvað svo? Lúr undir sæng með hádegisfréttum í útvarpi. Loks tók hugurinn að rifja upp hinar ýmsu sýningar sem eru í gangi í borginni og segir:

„Ég ætti nú að drífa mig og skoða þessa, koma svo við á hinni úr því að ég er komin af stað og ganga niður Laugaveginn og finna vinalega kaffistofu og tylla mér. Taka myndavélina með, veðrið er svo gott, smella einni og einni á mannlífið og ná fram svart -hvítum andlitum. En það er einhverskonar óþol í gangi. Man ekki eftir neinni vinalegri kaffistofu þessi árin. Æ, ég nenni ekki út.“

Tók fram bókina eftir Böðvar á Kirkjubóli, Sögur úr Síðunni. Ásta gaf okkur hana daginn sem hún kom í bókabúðina í Mjódd. En ég er ekki sáttur við bókina. Hún er skrifuð undir rós. Allt of mikið undir rós. Sveitin er eiginlega engin Hvítársíða og mannanöfnin út í hött. Þótt maður þykist þekkja alla sextán bæina og margt af fólkinu. Of mikið undir rós.

Á miðju síðdegi bakaði ég sextán pönnukökur. Til að veita hreyfiþörfinni útrás. Þær eru allar til undir plastfilmu í eldhúsinu. Hitaði mér sænskar kjötbollur úr Ikea í kvöldmat og gerði mús og glímdi við sósuna. Hef aldrei náð réttu bragði. Kannski ætti ég að prófa edik næst. Eina matskeið. Kann einhver lausnina? Loks var komið að sjónvarpsfréttum. Þá breyttist margt. Horfði á Spaugstofuna. Hún er orðin nokkuð fyrirséð. Svo komu laugardagslögin.

Þá byrjaði ég að smella á milli rása. Hef ekki aðgang að Stöð tvö. Sakna hennar aldrei. Hef aðgang að norðurlöndunum. Þar er stundum ágæt afþreying. En lagið hennar Margrétar Sigurðardóttur var afgerandi besta lag kvöldsins og líklega besta lag þáttanna til þessa. En í undanrásum keppninnar undanfarin ár hafa bestu lögin aldrei náð langt. Svo klikkað sem það er. Gafst upp á Toscana myndinni og fór að sofa.

Nú er sunnudagsmorgun og klukkan er nú farin að ganga ellefu. Ég er búin að þvaðra nóg. Ætla að snúa mér að einhverju merkilegra. Ásta kemur heim síðdegis. Þær fóru saman systurnar, hún og Margrét, upp í Kalmanstungu til þriðju systurinnar, Bryndísar, sem er bóndi þar. Það tók þær fjóra mánuði að finna helgi sem hentaði þeim öllum að hittast. Það er mjög athyglisvert.

Enda ég pistilinn með vísukorni eftir Piet Hein, þýtt af þýðanda þjóðarinnar, Helga Hálfdanarsyni:

Ráð til ræðumanna

Þegar efnið
reynist rýrt,
er ráð að tala
ekki skýrt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.