Í nýju flugstöðinni í Keflavík

Hávær hlátur fjórmenninga fékk manninn sem strauk gólfin með moppunni til að líta upp og til þeirra. Þeir sátu þarna fjórir saman, frjálsir í fasi og raddstyrk. Hölluðu sér aftur á bak í stólunum og fyrir framan þá á borðinu voru gosflöskur og kaffibolli. Mikil sjálfsánægja geislaði af þeim. Sá í teinóttu fötunum spurði hina hvað ætti að gera um helgina. Menn litu hver á annan. Sá fyrsti sagði:

„Ég verð í Frakklandi. Suður Frakklandi.“ Hinir horfðu á hann og biðu eftir nánara svari: „Já, ég á þarna gamla villu og smávegis vínrækt. Það er að byrja uppskerutími.“ Mennirnir litu á glösin sín, teygðu sig eftir þeim og dreyptu á. Annar sagði: „Ég verð í Kaliforníu. Hjá fjölskyldunni. Við ætlum að eyða helginni saman.“ Þriðji lyfti kaffibollanum sínum og sagði: „Ég fer til Kína. Við erum að kaupa verksmiðju þar.“

Nú litu þeir allir á þann í teinóttu fötunum. Hann brosti blíðlega og íbygginn. Sagði svo: „Við ætlum í siglingu um Miðjarðarhaf, nokkrir gamlir félagar. Á einkaskútu. Hétum því við útskrift, þrír strákar úr Gaggó vest, að fara í þessa siglingu þegar við ættum orðið milljón dollara.“ Þögn varð um hríð. Hann bætti við: „Ég hef þurft að bíða eftir þeim í átta ár.“ Svo skellihló hann og sagði: „Þeir ætluðu aldrei að ná þessu.“

Maðurinn sem strauk gólfin með moppunni hafði stansað nálægt borði þeirra félaganna og hlustað á samræðurnar. Hann hallaði sér yfir borðið sem þeir sátu við og færði til öskubakka. Sagði svo þýðum rómi: „Má ég spyrja herrana hvaða bækur þeir taka með í svona ferðalög?“ Félagarnir settu upp undrunarsvip og litu hljóðir hver á annan. Nokkur augnablik liðu. Þá svaraði sá í teinóttu fötunum: „Alveg rétt. Það minnir mig á það. Ég átti ekki að mæta hér. Jim kom á þotunni sinni að sækja mig.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.