Þá voru engir peningar

Lognmollan kom, iðandi og fallandi – loðin og stór. Skæðadrífa. Stórar snjóflyksur sem falla í logni. Jörðin var orðin hvít. Rétt á meðan Lýður klippti mig. Og bjart yfir að líta á bílastæðinu. Sálin brosti við birtunni. Eldri maður skóf af afturrúðu bíls síns. Hann var önnum kafinn. Ég ávarpaði hann: „Hún heitir Hundslappadrífa.“ „Já, já, ég man vel eftir henni. Svo er fullt af fólki sem veit eiginlega ekkert hvað snjór er. Þetta var oft þannig í gamla daga að ruðningurinn var svo hár meðfram veginum að það sást ekki út yfir hann.“

„Ég man eftir því,“ sagði ég. „og þá gat verið heilmikið vesen að komast leiðar sinnar.“ „Held ég muni það nú,“ sagði maðurinn, „það var svo erfitt að hjóla suður á Álftanes. Við hjóluðum alltaf suður á Álftanes og seldum Daily Post í öll braggahverfin þar sem hermennirnir voru. Ég man líka eftir því að þegar það komu skip með koks til Bretanna, þeim var ekið út í kampana á vörubílum og sett eins mikið á þá og mögulegt var. Þá lærðum við strákarnir að setja planka fyrir afturhjólin á bílunum. Þegar þeir óku yfir þá, hrundi heilmikið af koksi af þeim og við tíndum þau í poka og seldum.

Svo seinna, þá var maður á eyrinni og reyndi að snapa vinnu. Það voru kannski hundrað manns sem eltu Jón Rögnvaldsson, verkstjóra hjá Eimskip, í þeirri von að hann pikkaði þá út í uppskipun. Ég komst upp á lag með að fara um borð þegar Jón benti á einhvern nærri mér. Hann lét eins og hann sæi það ekki en ég er viss um að hann sá það. Fjölskylduna vantaði peninga. Þá voru engir peningar.

Þetta var eins með fiskinn. Maður fór niður á bryggju þegar bátarnir komu að og karlarnir köstuðu fiski til manns. Þeir fengu svo lítið fyrir fiskinn að þeim var alveg sama. Já, maður. Það var margt öðruvísi þá. Annars held ég að það sé svona tveggja stiga hiti. Þetta bráðnar jafnóðum,“ sagði hann og renndi sköfunni eina ferð eftir afturrúðunni. „Ég átti heima í vesturbænum þá. Svo fluttum við upp á Bergþórugötu. Þá var mjólkin seld í brúsa. Og maður beið stundum eftir vínarbrauðsendum. Þá voru engir peningar til. Snúður kostaði fimmtán aura.“

Ég kvaddi manninn með handabandi. Litlu síðar ók hann af stað á bílnum sínum. Hann var svo lár í sætinu að hann rétt sá yfir stýrið. Og japlaði heil býsn þegar hann beið færis að komast af stæðinu og út á götuna.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.