Kom úr blóðtöku um ellefu leytið í morgun. Veðrið var blítt. Ákvað að ganga um og skoða svæðið. Langt síðan ég hafði komið þarna. Allt er breytt. Verslanir farnar, aðrar komnar. Miklir glerveggir. Málverkasýning. Fátt um viðskiptavini. Bakarameistarinn. Þrjár sálir sátu og neyttu veitinga. Þær töluðu hver upp í aðra, niðursokknar, með fulla munna. Þetta var í Glæsibæ.
Best að svindla á aðhaldinu, hugsaði ég með mér. Tók afgreiðslunúmer þegar allir virtust verða á undan mér. Svarthærð afgreiðslustúlka kallaði: „Þrjátíu og níu?“ Það er eins og svipuhöggin sem þeir lömdu frelsarann með. Önnur stúlka hrópaði: „Fjörutíu?“ Hávaxinn ungur og geðfelldur maður lyfti hendi með númeri í. Ég gekk upp að honum og sagði: „Hvað ertu hár?“ „Tveir núll þrír,“ svaraði hann blíðlega og brosti niður til mín.
„Fjörutíu og einn?“ var nú kallað. Ég gaf mig fram. „Hvað get ég gert fyrir þig, elskaan?“ spurði stúlkan hvellri röddu. „Ha, mig. Já. Capuchino takk.“ „Einfaldan eða tvöfaldan, elskaan?“ „Einfaldan, takk.“ Hún snéri sér að könnunni og tók að berja hana og hvæsa mjólkurfroðunni í stálkönnu. Ég reyndi að anda djúpt. Stúlkan kom brosandi að afgreiðsluborðinu. „Eitthvað fleira fyrir þig, elskaan?“ spurði hún enn, sömu hvellandi röddunni. „Rúnnstykki, takk,“ svaraði ég.
„Hvernig rúnnstykki elskaan?“ spurði hún enn. „Ha, hvernig, eru margar gerðir?“ „Já, venjulegar, tveggja korna, þriggja korna, með osti, með skinku, elskaan.“ Nú var úr vöndu að ráða. „Ja, eins óholla og hægt er,“ svaraði ég og var að byrja að ná mér, „með smjöri og osti, elskan,“ bætti ég við. Þá brosti hún alveg út að eyrum og hvarf út í horn. Hún skar bollu, smurði smjörva þykkt og lét eina ostsneið á milli helminganna
Svo kom hún og sagði: „Gjörðu svo elskaan,“ og sló tölur inn á kassann. „Þú ert auðvitað með eldri afslátt, elskaan?“ „Ha,eldri, já, ég er það,“ svaraði ég. Hún tók við peningum, gaf til baka, brosti yndislega og sagði: „Verði þér að góðu elskaan.“ „Þakka þér alveg svakalega vel fyrir það elskan,“ svaraði ég og fann mér borð fyrir utan kaffistofuna. Og ég sem hélt að það væru bara jafnaldrar mínir sem aldurinn sæist á.
Þegar út í bílinn kom leit ég í spegilinn og sagði við eldri borgarann í speglinum: Þú ættir kannski að láta lita á þér hár og skegg. Elskan.“
Elsku Hrönn.
Það er rétt hjá þér, kaffið var elskulegt og meðlætið einnig. Hvað öðru líður? Sprellfjörugt blóð.
Þetta hefur greinilega verið sérstaklega elskulegt kaffi og meðlæti.. það er alveg ljóst!
Hvað svo sem öllu öðru líður ;o)