Lessuhestur

Við sátum saman í gær fimmtán manns og nutum hádegishlaðborðs í Rimahverfi. Tilefnið var tuttugu og eins árs afmæli konu í fjölskyldunni. Að sjálfsögðu voru gómsætir réttir bornir fram og neytti fólk þeirra af ómældri ánægju. Umfram veitingar var það samt sem áður vinsemdin og hlýjan sem einkenndi samveruna.

Eins og gerist gjarnan þegar skyldmenni koma saman ber hin ýmsu dægurmál á góma og í hvert sinn sem bættist við í hópinn var spurt: Hvað finnst þér um Moggann og Davíð? En það var eins og allir vildu komast hjá að ræða málið af afli sem var að sjálfsögðu af virðingu fyrir vinsemdinni sem ríkti, en vitað var að í hópnum voru skiptar skoðanir. Þannig voru ýmis önnur mál rædd eins og gengur þegar fjölskyldur hittast yfir kaffibolla eins og hjá persónum Guðrúnar frá Lundi sem Dagný Kristjánsdóttir segir um:

„Það er hellt upp á könnuna þegar koma gestir sem rjúfa einangrun og tilbreytingarleysi hversdagslífsins í sveitinni. Það er líka búið til kaffi ef fólk hefur unnið vel, ef fólk er þreytt eða niðurdregið eða ef þarf að leysa mikilvæg vandamál. Kaffidrykkja er með öðrum orðum mikilvægt form félagslegra samskipta auk þess sem konurnar nota kaffið til að sýna umhyggju, umbuna fólki og hugga og hressa við þá sem þess þurfa. Kaffi drykkjan fer aldrei fram í baðstofunni, heldur alltaf í eldhúsinu sem er yfirráðasvæði kvennanna.“ (Undirstraumar, bls. 229)

Þegar kom að tali um bækur varð umræðan ekki alveg eins áköf hjá öllum en færeyska konan vildi hrósa tengdaföður sínum fyrir dugnað við bókalestur og sagði í aðdáunartóni: „Þú ert nú svo mikill lessuhestur afi.“ Nýyrðið var að sjálfsögðu gripið á lofti og þegar glæsileg konan vildi leiðrétta framburðinn var hún kveðinn í kútinn með skvaldri.

Í gærkvöldi vorum við Ásta svo þeirrar ánægju aðnjótandi að föðursystir Ástu, Ingibjörg Brynjólfsdóttir, níutíu og þriggja ára gömul, þáði að borða með okkur kvöldmat. Var vandað til matargerðarinnar og kapp lagt á að gesturinn hefði ánægju af mat og samveru. Þegar við svo horfðum á Spaugstofuna saman og skotin á Davíð dundu á skjánum spurði ég Ingibjörgu hvort hún hefði skoðun á málinu. Í sínu langlífa lítillæti svaraði hún blíðlega: „Maður verður nú fyrst að sjá hvernig hann vinnur þetta. Annað finnst mér kjánalegt.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.