Sjálfboðaliði í Chile

Helgin var örlát við okkur. Hitinn alla dagana allt að 14°C. Reyndar var vindur allstífur af suðvestri og rigningadembur á milli. En við vorum vel búin bókum að venju og eins og allir vita að þá eru góðar bækur góðir vinir. Ásta nestaði sig með Berlínar öspunum. Bókin tók hana tökum strax á fyrstu blaðsíðunum.

Aðalbókin mín var Fávitinn eftir Dostojevski. Þá Michel Foucault í Alsæi, vald og þekking. Sem bókamerki hafði ég Um rætur þekkingar eftir Arnór Hannibalsson. Á milli skúra fórum við hjónakornin út og spjölluðum við hríslur. Þær elstu eru sex ára um þessar mundir. Og til gamans mældum hæð nokkurra þeirra og skráðum á bók. Þær hæstu losa tvo metra. Birki og ösp.

Á laugardag ókum við fram í Kalmanstungu. Síðumegin. Ætluðum að sjá leitarmenn koma af fjalli með safnið til Fljótstunguréttar. En við vorum of snemma á ferðinni. Á hlaðinu í Kalmanstungu hittum við nokkurn hóp af fólki. Það var þangað komið til að smala heimahagana og gera skil til réttarinnar. Og að sjálfsögðu til að vera í réttunum. Kátína og glaðværð ríkti í hópnum.

Þarna var Kristín Kalmans og Marcello og börnin þeirra. Jenni sonur Nonna í Toppi og Stefán Kalmans og hans fólk. Þá var Óli Kristófers, með sitt glæsilega alskegg, ásamt sínu fólki á fullu að koma kindum á vagn til að fara með í réttina. Loks var nokkuð af börnum og inni í húsi hjá Bryndísi var setið í hverju einasta sæti. Fólk á leið í Fljótstunguréttir. Jón Ásgeir og fjölskylda renndu í hlað.

Í stuttu samtali við Marcello kom fram að hann var nýkominn úr ferð til Chile sem er hans föðurland. Hann heimsótti fullorðna foreldra sína og önnur ættmenni sem tæpast er í frásögur færandi. Ein setning sem hann sagði vakti þó athygli mína umfram aðrar. Hann sagði frá föður sínum sem er læknir og kominn á eftirlaun fyrir nokkrum árum, en starfar sem sjálfboðaliði á sjúkrahúsi fyrir fátæk börn þrjá daga í viku. Launalaust.

Eitt andsvar við „Sjálfboðaliði í Chile“

  1. Mátti til að leggja orð í belg, þegar ég las þetta um pabba Marcelo, sem ég hafði ekki heyrt, að hann væri að vinna launalaust á sjúkrahúsi. Það segir mér ásamt öðru, hvað það er gott fólk sem stendur að Marcello. Mér finnst ég hefði ekki getað fengið betri tengdason en hann er. Kveðja til ykkar Ástu og takk fyrir síðast.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.