Vér viljum gera fátæktina útlæga

Í bókinni Fólk í fjötrum, eftir Gylfa Gröndal, rithöfund, ber einn kaflinn þetta heiti sem ég valdi á pistilinn. Í bókinni er mikill fróðleikur um baráttu verkalýðstéttarinnar á Íslandi. Þar segir meðal annars frá stofnum fyrsta Alþýðublaðsins, sem kallað er Alþýðublaðið gamla, en fyrsta tölublað þess kom út 1. janúar 1906.

„Stefnuskrá blaðsins var hógvær og engin byltingarbragur á henni; ekki var minnst einu orði á kaupkröfur eða verkföll. Hún var stutt en efnisrík og hljóðaði svo:

Að vernda rétt lítilmagnans.
Að sporna við kúgun og yfirgangi auðvalds og einstakra manna.
Að innræta þjóðinni þekkingu á gildi vinnunnar og virðingu fyrir henni.
Að efla þekkingu alþýðunnar, einkum á þjóðfélagsfræði, atvinnurekstri og vinnuaðferðum.
Að styðja samtök verkamanna, sem miða að því að sporna við valdi og vana, áníðslu og órétti, en efla sameiginlegan hagnað.
Að efla svo andlegan þroska alþýðunnar að hún verði jafnfær til ráða sem dáða.

Á forsíðu fyrsta tölublaðsins er forystugrein ritstjórans, Péturs G. Guðmundssonar:

„Íslensk alþýða!
Þetta blað sem hér birtist er ætlað alþýðu. Við sem gefum það út, erum alþýðumenn, en svo eru í daglegu tali kallaðir sem ekkert stjórnvald hafa, ekki hafa lagt fyrir sig vísindalegt nám en gera líkamlegt erfiði að lífsstarfi sínu. Ef litið er á flokkaskiptingu þjóðfélagsins sést það brátt, að við erum stærsti flokkurinn. En því miður er það sögn og sannindi, að við höfum enga aðra yfirburði en mergðina. Völdin getum við haft en viljum það ekki; við höfum fengið þau öðrum í hendur eða réttara sagt leyfum öðrum að halda þeim fyrir okkur. Við höfum aftur augun og gefum okkur í auðmýkt undir þrælkun, ranglæti og fyrirlitningu. Valdhafarnir segja okkur hvernig við eigum að sitja og standa, hvernig við eigum að lifa og deyja…““
Fólk í fjötrum, bls. 130 og 132.

Bók Gylfa Gröndal er ágæt lesning á þessum dögum þegar margir skima eftir nothæfum stjórnmálamönnum og flokkum til að kjósa til Alþingis. Fyrir mér er gamli Alþýðuflokkurinn vinur lítilmagnans . Samfylkingin, sem er einskonar flokkagrautur, mun aldrei hafa sömu getu til að standa heilshugar með þeim sem verst eru staddir í þjóðfélaginu og Alþýðuflokkurinn fyrir miðja síðustu öld. En það gerir manni gott að lesa um fólk sem barðist fyrir jöfnuði og réttlæti af einlægni. Margir gætu lært af því.

Meira á næstunni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.