Helgi og Hannes – og tuttugu prósentin

Það hefur verið fremur kuldalegt að mæta í bugtinni við Ægisgarð síðustu daga. Norðaustan vindur feykti snjónum eftir malbikinu og safnaði honum við gangstéttarbrúnirnar. Lítill skafl hefur myndast undir bekknum sem félagarnir gjarnan setjast á þegar þeir hittast og ræða málin.

Nú voru þeir mættir eftir nokkurt hlé. Helgi var í öllum sínum kuldaflíkum, þykkum síðum frakka með breiðan ullartrefil tvívafinn um hálsinn, húfuna niður í augum og hendur djúpt í vösum. Það var léttara yfir Hannesi, enda komin sunnan átt og hitinn yfir frostmark.

Hannes: Eitthvað að frétta?
Helgi: Afmæli í gær.
Hannes: Afmæli? Hver átti afmæli?
Helgi: Þórður.
Hannes: Þórður?
Helgi: Hennar Stínu með stóru brjóstin.
Hannes: Þau voru nú alltaf flott maður.
Helgi: Og eru enn.

Hannes: Var þetta gott afmæli?
Helgi: Nóg var af tertunum.
Hannes: Hnallþórur?
Helgi: Heldur betur.
Hannes: Margt fólk?
Helgi: Setið í öllum sætum.
Hannes: Mikið spjallað?
Helgi: Nóg af því.
Hannes: Eitthvað merkilegt?
Helgi: Það vildu allir tala um tuttugu prósentin.
Hannes: Tuttugu prósentin?
Helgi: Þessi flötu, í hausunum á Tryggva og Sigmundi.

Hannes: Og hvað?
Helgi: Það lá við slagsmálum um tíma.
Hannes: Hvað segirðu?
Helgi: Já. Frikki fatalausi ætlaði að berja í Sigga í Stóra húsinu.
Hannes: Berja Sigga? Af hverju?

Helgi tók sér málhvíld. Hann horfði út yfir höfnina. Sjófuglinn renndi sér niður að haffletinum í löngum sveig og upp aftur. Það rétt sá í augu og nef Helga á milli trefils og húfu. Loks ýtti hann treflinum niður fyrir munninn.

Hannes: Vertu ekki að draga mig á þessu. Segðu frá.
Helgi: Það var út af þessum tuttugu prósentum.
Hannes: Nú?
Helgi: Já, já. Siggi í Stóra húsinu skuldar sjötíu milljónir, en Frikki
fatalausi sjö og hálfa.
Hannes: Nú já?

Helgi: Siggi í Stóra húsinu fengi fjórtán milljónir í niðurfellingu,
Frikki fatalausi bara eina og hálfa.
Hannes: Og hvað?
Helgi: Þá byrjaði Frikki fatalausi að titra.
Hannes: Yfir hverju?
Helgi: Þegar hann spurði hverjir ættu svo að borga ríkinu fyrir
niðurfellinguna, glotti Siggi í Stóra húsinu og sagði að ríkið
næði því með sköttum auðvitað.
Hannes: Er það ekki eðlilegt?
Helgi: Ég veit það ekki. Siggi í Stóra húsinu borgar bara tíu
prósent í skatt af því að hann er með rekstur, en Frikki
fatalausi þrjátíu og sjö af því að hann er ekki með rekstur.
Og þegar þetta var komið fram fór Siggi í Stóra húsinu að
skelli hlægja og þá trylltist Frikki fatalausi, bókstaflega
trylltist og ætlaði að stökkva á hann.
Hannes: Varð hann svona reiður?
Helgi: Alveg snar.
Hannes: Hvað gerðist svo?
Helgi: Stína með stóru brjóstin tók utan um hann og þrýsti honum
að brjóstunum á sér. Siggi í Stóra húsinu tók hattinn sinn og
sagði um leið og hann kvaddi: „Það er ekki sama í hvaða liði
maður er, ágæta fólk. Munið það í kosningunum í vor.“

6 svör við “Helgi og Hannes – og tuttugu prósentin”

  1. Hvernig stendur á að mér var ekki boðið í þessa afmælisveislu?

  2. Frikki ætti að fara í framboð sjálfur og þá fyrir L eða O lista

  3. Ágæti Glúmur. Þú hefur áhyggjur af atkvæði Frikka fatalausa en engar sjáanlegar af Sigga í Stóra húsinu. Vafalítið treystir þú á að Siggi í Stóra húsinu sé framsóknarmaður eins og þú og stærstu eigendur Hb Granda.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.