„Ólafur Briem á Grund í Eyjafirði gekk að eiga Dómhildi frá Stokkahlöðum, sem ól honum 15 börn á 20 árum. Einhvern tíma bar hún veitingar fyrir hann og nokkra vini þeirra hjóna. Þá renndi Ólafur hýru auga til konu sinnar og mælti ögn glettinn:
Því ertu svona þykk að framan?
Því ertu svona föl á kinn?
Dómhildur brosti og svaraði að bragði:
Við höfum lengi sofið saman;
sú er reyndar orsökin.
Hundrað árum síðar gerðu símastúlkur á Akureyri og Húsavík sér leik að kastast á fyrri pörtum og botnum. Eitt sinn varð þeim á Akureyri hugsað til Grundarhjóna og sendu þeim á Húsavík fyrri part á þessa leið:
Því er ég svona þykk að framan?
Því er ég svona föl á kinn?
Svo vildi til, að í sama mund átti snillingurinn Egill Jónasson erindi á símstöðina á Húsavík, og varð það til þess, að þær á Akureyri fengu umsvifalaus þennan botn:
Þú hefur verið að gera þér gaman,
og gamninu hefur slegið inn.“
Fengið að láni úr bókinni molduxi eftir Helga Hálfdanarson.