Nú er að koma mynd á framboðslista stjórnmálaflokkanna. Þá er komið að kjósendum að vega og meta málefnin og fólkið og reyna að finna út hvort eitthvað af þeim er nægilega eftirsóknarvert til að toga kjósendur á kjörstað. Ekki verður sagt að endurnýjun á framboðslistunum hafi orðið eins mikil og vænst var.
Það var með nokkurri eftirvæntingu sem ég horfði á Silfur Egils í gær. Þarna voru mættir efstu menn á listum fjögurra framboða. Sigurmundur Davíð, Guðfríður Lilja, Árni Páll og Bjarni Ben. Ég hafði nú svo sem ekki búist við miklu af þessu fólki og ekki náði málflutningur þess að heilla mig. Það skásta sem fram kom voru orð Guðfríðar og Sigurmundar.
Árni Páll og Bjarni Ben. komu mér á óvart. Árni málglaður eins og smástrákur í vörn, grípandi frammí fyrir öðrum gestum þáttarins hvað eftir annað. Bjarni Ben. verðandi formaður Sjálfstæðisflokksins, virtist mér vilja komast hjá því að tjá sig mikið um málefnin sem efst eru á baugi. Ónotaleg tilfinning greip mig um að leyndin skuli í hávegum höfð í hans herbúðum eins og hingað til. Var það þó leyndin sem verst fór í almenning siðan 6. október s.l.
Svo sá ég á AMX í morgun að þar er reynt að gera hlut Egils Helgasonar, í Silfrinu, tortryggilegan. Hann sagður í uppnámi. Þeir eru að sjálfsögðu báðir í Sjálfstæðisflokknum, Bjarni Ben. og Óli Björn ritstjóri AMX og báðir í framboði í Kraganum þar sem ég kýs, þyki mér það ómaksins vert. En það eru enn 40 dagar til kosninga. Margt getur gerst.