Flokkurinn fór frá mér

Ýmsir hafa spurt mig, sumir undrandi og aðrir álasandi, hvort ég sé að yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn þar sem ég hafi haldið hús í meira en 50 ár. Byggja þeir spurningarnar á pistlum mínum á heimasíðunni undanfarið. Þykir karlmönnum nóg um og einstaka konu líka. Þá hafa einn og einn með háðsku glotti spurt hvort ekki sé allt í lagi í toppstykkinu.

Ég svara þessu nú þannig til að toppstykkið sé allgott og Guði sé lof fyrir það. En þau skyldu átta sig á því, eins og Ragnar Reykás orðar það, að flokkurinn hafi eiginlega farið frá mér. Það gerði hann þegar hann bjó svo um hnútana að þeir efnuðu voru gerðir að forgangsfólki í þjóðfélaginu, nógu margir til þess að tryggja stjórninni völdin. Þessi var skoðun mín undanfarin ár.

Vísaði gjarnan til orða ónafngreinds spekings sem sagði:

„Ríkisstjórn sem sparar við þá efnaminni til að efla þá efnameiri getur alltaf treyst á stuðning þeirra efnameiri.“

Og lætur sér þess vegna í léttu rúmi liggja hvernig þeim efnaminni reiðir af.

Svo þegar allt fór til fjandans, það er svo sem ekki hægt annað en að segja að flokkurinn eigi þar mikla sök á þótt hann kannist ekki neitt við neitt, þá var mér eiginlega öllum lokið. Núna, í efnahagskreppunni, komast þeir efnameiri sæmilega af, en þeir efnaminni súpa dauðan úr skel. Það vill svo til að fólkið sem er að missa allt, foreldrar sem naumast eiga fyrir mat handa börnum sínum, eiga samúð mína alla.

Þess vegna hlusta ég afar gaumgæfilega á orðræður stjórnmálamanna þessa dagana og horfi á verkin sem unnin eru og ætla að kjósa þá sem ég vantreysti minnst til að gæta hagsmuna almúgans.

5 svör við “Flokkurinn fór frá mér”

  1. Þetta snýr nú þannig við mér, ágæti Glúmur, að saman hafi þeir, því miður, grafið þjóðinni gröf saman, um langt árabil. Framhjá því verður ekki horft hversu heilsteyptur sem átrúnaðurinn er.

  2. Þeir tvímenntu og sá minni hélt sér í hinn, en þó fór svo til allrar lukku að hann datt af baki 2006 áður en sjórinn reið yfir.

    Ég bar reyndar enga ábyrgð á samreiðinn 2002-6. Fór ekki á kjörstað þá.

  3. Mín ummæli þau sömu og Kristjáns Albertssonar 1927

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.